Þróunin á myndinni New Moon hefur heldur betur verið sett í hæsta gír því skv. Kristen Stewart munu tökur hefjast strax í mars á næsta ári.
New Moon er beint framhald af Twilight, sem væntanleg er í Sambíóin á föstudaginn næsta. Twilight sló nóvembermet í aðsókn í BNA með opnun upp á $69 milljónir, og myndin kostaði rétt um $37 milljónir í framleiðslu.
Aðstandendur hjá Summit Entertainment gáfu samstundis grænt ljós á framhaldsmyndina eftir opnunartölurnar, og miðað við þann brennandi áhuga sem hefur verið á myndinni undanfarið er ekki skrítið að þeir vilja keyra þróunina hratt.
Upphaflega var ætlunin sú að gefa New Moon út í kringum 2010, en nú er stefnt að því að gera hana að jólamynd 2009.
New Moon er – augljóslega – önnur bókin í vampíruseríu Stephenie Meyer, en samtals eru bækurnar fjórar og ekki er ólíklegt að allar verði kvikmyndaðar.

