Nasistar á tunglinu – og með húmor

Alveg sama hvernig heildarniðurstaðan er, þá elska ég þegar einhver kokkar upp frumlegar steypuhugmyndir og býr til heila bíómynd úr þeim, og jafnvel ef Iron Sky væri algjör hundaskítur þá yrði tilvist hennar samt auðveldlega réttlætanleg. Þetta segi ég vegna þess að hún tekur einhverja æðislegustu, fyndnustu og mest abstrakt grunnhugmynd sem hefur skilað sér í formi kvikmyndar í fullri lengd sem ég hef séð án þess að hún komi frá Asíulöndunum. Þegar Pink Floyd sagði að það væri eitthvað statt á myrku hlið tunglsins efast ég um að þeir hafi verið að tala um bækistöð nasista, en mikil heljarinnar snilld er sú hugmynd samt!

Iron Sky er frumleg og meinfyndin satírusýra sem þarf í rauninni að sjá til að trúa. Og nasistar á tunglinu er nú samt bara rétt svo byrjunin, sem betur fer, og er myndin alveg morandi í alls kyns rugli og súrum tilvísunum. Ég geng þó ekki yfir þá línu að kalla þetta góða mynd í hefðbundinni merkingu orðsins og mér þykir það frekar fúlt að hún verður aldrei eins „edgy“ og hún ætlar sér að vera, en sem grínmynd kemur hún þægilega á óvart ef þú ert einn af þeim sem hefur húmor fyrir nasistum, staðalímyndum og fílar ruglaða ádeiluparódíu þar sem ekki nokkur skapaður hlutur er heilagur. Ef þetta hljómar ekki eins og þín týpa af hakakrossi, þá geturðu alltaf hámað í þig amerískan skyndibita á borð við The Three Stooges ef þetta er of mikil steik fyrir þig.

Ég veit samt ekki með ykkur en fyrir mér skiptir það miklu máli að horfa á svona mynd með fólki sem hefur svipaðan húmor og ég. Það er aldrei útilokað að missa sig úr hlátri þegar maður situr einn heima í stofu en með réttu félögunum verður stemmarinn oftast ánægjulegri og þetta er akkúrat mynd sem virðist öskra á þannig fíling, hvort sem menn eru edrú eða ekki. Myndin er nefnilega svo ruddalega spes að maður þarf að koma sér í nokkuð nákvæman gír, svona svipað og þegar maður horfir á Asylum-myndir til þess að hlæja að þeim. Munurinn hér er auðvitað sá að þessi B-mynd er allan tímann að reyna að vera fyndin. Hún er það ekki alltaf, og lélegu atriðin geta verið afskaplega óþægileg, svona eins og þegar maður sér ófyndið grín í Spaugstofunni þar sem leikararnir verða svo yfirdrifnir í ofleik að maður gnístir samstundis tönnum. Söruh Palin grínið verður t.a.m. ansi fljótt úrelt.

Lukkulega tekst Iron Sky að jafna sig fljótt eftir vondu tilraunirnar, og hún hittir miklu oftar í mark heldur en ekki. Fyrir utan kannski dalandi miðju helst myndin á prýðilegu róli, en hún nær hins vegar aldrei að toppa sig eftir fyrsta þriðjunginn eða svo. Þá er allt lagt á borðið og ódýri fílingurinn nær einhvern veginn að gera þessar metnaðarfullu hugmyndir í söguþræðinum miklu skemmtilegri því maður veit að þetta er allt gert í pjúra gríni.

Fyrir utan þessa margumtöluðu grunnhugmynd er vel þess virði að fórna tímanum í myndina fyrir þá brandara sem virka, til dæmis má nefna mest allt sem gerist hjá Sameinuðu þjóðunum (þ.á.m. brilliant skot á Finna, ásamt Norður-Kóreumönnum), stórkostlega notkun á Chaplin-myndinni The Great Dictator, frábæra senu þar sem ein aðalpersónan reynir að útskýra söguþráðinn fyrir lögreglumanni og hugsanlega albestu stælingu á frægustu senunni í Der Untergang sem ég hef nokkurn tímann séð. Internetvídeóin sem settu endalaust nýjan texta við atriðið eiga varla neitt í þetta. Svo getur maður ekki annað en sett á sig trúðalegt bros þegar sagan kemur með tilviljanakenndar reddingar. Allt partur af gríninu, að sjálfsögðu, og það er haugur af svona tilfellum. Best er líklegast lausnin sem kemur alveg í lokin.

Það er ýmislegt í handritinu sem ég myndi ekki hika við að kalla snjallt og mér finnst æðislegt að sjá hvað leikararnir lifa sig mikið inn í þetta og fjölbreytnin hjá þeim er skuggalega mikil í þokkabót. Sumir eru ýktir, aðrir jarðbundnir og nokkrir grafalvarlegir, og yfirleitt eru þeir alvarlegu bestir. Götz Otto heldur sér allan tímann í karakter (hann meira að segja segir það sjálfur – eða næstum því), Udo Kier (nasistalegasti leikari í heimi! á eftir Thomas Kretschmann) hefur sjaldan verið meira á heimavelli og Christopher nokkur Kirby breytir sér í einn endalausan svertingjabrandara, sem ekki hver sem er myndi gera.

Ég veit samt ekki alveg af hverju en ég held að aðalleikkonan Julia Dietze hafi stolið hjarta mínu og stungið af með það. Persóna hennar er svo krúttlega einlæg miðað við ruglaða tóninn, og ég elska hvernig heimssýn nasista er sýnd sakleysislega frá hennar sjónarhorni. Þetta er samt í rauninni bara smáatriði því ég kemst fyrst og fremst ekki yfir það hvað þetta er heitur og fallegur kvenmaður sem ég myndi glaðlega eignast fullt af börnum með.

Ég viðurkenni síðan að ég veit ekkert hverjir sáu um tölvubrellurnar í myndinni, en ljóst er áhuginn þeirra hefur verið svo sterkur að það er næstum því óeðlilegt. Brelluskotin eru jafnflókin og þau eru mörg og stundum er áberandi hversu ódýr þau eru, eins og eitthvað sem maður sér í „Syfy Channel“ myndum. Hins vegar eru engin rök fyrir því að rýna í það hversu ódýrar og gervilegar brellurnar eru, því miðað við framleiðslukostnað myndarinnar (tæplega 10 millur í bandaríkjadölum!) eru þær hér um bil framúrskarandi. Sumir rammarnir í myndinni eru með þeim svölustu sem ég hef séð á öllu árinu. Ímyndið ykkur ef þetta lið fengi fjármagn í líkingu við meðalstórar Hollywood-myndir!

Það kemur fyrir að Iron Sky flæðir skringilega en það er samt svo mikil umhyggja fyrir öllu flippinu og þess vegna myndi mér líða illa ef ég myndi ekki sýna henni ágætan stuðning. Hún er alls ekki við hæfi allra, en líklegast er það partur af því sem gerir hana svona skemmtilega.

Jesús hvað apríl í ár er öflugur bíómánuður!


(7/10)

 

Stikk: