Naomi Watts leikur Díönu prinsessu

Naomi WattsNaomi Watts hefur landað hlutverki Díönu prinsessu heitinnar í kvikmyndinni Caught In Flight. Upprunalega var Jessica Chastain (The Tree of Life) orðuð við hlutverkið en núna hefur verið staðfest að Watts fær að spreyta sig. Þetta hefur hún að segja um tækifærið: „Það er mér mikill heiður að fá að leika þetta stórfenglega hlutverk, Díana prinsessa var elskuð af öllum heiminum og ég hlakka til að takast á við áskorunina að leika hana á hvíta tjaldinu.“ Leikstjóri verður Oliver Hirschbiegel (Der Untergang) og mun myndin fókusa á síðustu tvö árin í lífi Díönu.

Það verður áhugavert að fá að sjá Díönu lifna við á hvíta tjaldinu, Watts er alveg ágætlega lík henni og er hin fínasta leikkona þannig að hún ætti ekki að eiga erfitt með þetta. Þessi mynd verður örugglega mikil verðlaunabeita og aldrei að vita nema Watts fái aðra tilnefningu til Óskarsverðlauna en það hefur ekki gerst síðan árið 2004 fyrir hlutverk hennar í 21 Grams.