Næsta Mad Max mynd á leiðinni

Tom Hardy tjáði sig nú um helgina um framhald Óskarsverðlaunamyndarinnar Mad Max: Fury Road, sem hann lék aðalhlutverk í. Hann sagði við áhorfendur á pallborðsumræðum vegna sjónvarpsþáttanna Taboo, sem haldnar voru á vegum Television Critics Association, að hann biði spenntur eftir að vita hvenær næsta mynd færi í gang.

tom-hardy-taboo-fx

„Það er ákveðin goðsögn tengd Mad Max sem tengist ofgnótt sagna,“ sagði Hardy. „Það sem er svo frábært hvað George [Miller leikstjóra Mad Max] varðar, er að hann bjó til sögur fyrir Max og sögur fyrir Furiosa [sem Charlize Theron lék], þannig að þetta snýst um hvaða leið hann ákveður að fara. Ég er í raun bara að bíða eftir að kallið komi, „Jæja, förum í leðurgallann, drífum okkur út og höldum áfram“.

„Þar er þetta statt, og ég bíð bara og hlakka til.“

Breska blaðið The Independent segir frá því að Hardy sé með samning um að leika í tveimur Mad Max framhaldsmyndum.

Næsta mynd mun verða Mad Max: The Wasteland.

„Þetta er bara spurning um hvenær. Ég veit ekki hvort hún kemur til með að heita The Wasteland, eða annað, maður veit aldrei. Þessi heiti breytast í sífellu. En það er klárlega framhaldsmynd í vinnslu.“

Mad Max: Fury Road vann sex Óskarsverðlaun á síðustu Óskarsverðlaunahátíð, og var tilnefnd til fjögurra til viðbótar.

Kvikmyndastjörnur vantar persónuleika

Leikarinn, sem er einn höfunda og aðalleikara í BBC búningadramanu Taboo, sagði að kvikmyndastjörnur hefðu hér áður fyrr getað verið persónulegar og með sín eigin einkenni í hlutverkum sínum, og benti á til samanburðar Harrison Ford í hlutverki Indiana Jones á níunda áratug síðustu aldar og Chris Hemsworth í hlutverki ofurhetjunnar Thor.

„Menn gátu verið með persónueinkenni,“ sagði Hardy í samtali við The Sunday Times. „Núna þarftu að líta út fyrir að vera nýbúinn að klára vegan-matarkúr, vera búinn að vera duglegur í ræktinni, vera að hluta til með útlit eins og sérsveitarmaður, snyrtilegur, heilsusamlegur, vera annt um allt og alla – og svo ferðu út og bjargar heiminum frá hættu sem er ekkert hættuleg í raun og veru.“