Næst hjá Kevin Smith

Silent Bob sjálfur, leikstjórinn góðkunni Kevin Smith, er með ýmislegt í vinnslu. Nú þegar tökum á næstu mynd hans, Jersey Girl, er lokið, hyggst hann halda áfram að reyna að láta gamlan draum sinn um að gera nýja Fletch mynd rætast. Ástæðan fyrir því að enn hefur ekki tekist að láta þennan draum rætast, er að Smith er búinn að vera að berjast fyrir því að ná vini sínum Jason Lee í aðalhlutverkið. Nú er sá draumur fyrir bí, og mun líklega aldrei rætast, því Miramax kvikmyndaverið vildi fá einhverja stærri stjörnu í aðalhlutverkið. Smith hefur samt ákveðið að reyna að gera myndin þá með einhverjum öðrum, og koma helst til greina þeir Ben Affleck, Will Smith, Brad Pitt, Adam Sandler og gamla Saturday Night Live brýnið Jimmy Fallon. Ef af myndinni verður mun hún nefnast Fletch Won og munu tökur á henni þá hefjast í janúar á næsta ári. Öllum þeim sem hafa síðan ekki séð gömlu Fletch myndirnar með Chevy Chase er hérmeð ráðlagt að gera það.

Næst hjá Kevin Smith

Snillingurinn Kevin Smith ( Dogma , Mallrats , Chasing Amy , Clerks ) hefur nú ljóstrað upp upplýsingum um hvað hann hyggst taka sér fyrir hendur nú þegar hann hefur lokið nýjustu mynd sinni, Jay and Silent Bob strike Back. Hefur hann sagt að J&SBSB sé seinasta myndin hans sem gerist innan Askew-heimsins, en allar myndirnar innan svigans hér að ofan tilheyra þeim heimi. Næst ætlar hann sér að leikstýra dramatískri mynd í anda Chasing Amy, um ungt par sem er að ala sitt fyrsta barn úr grasi. Hefur hann fengið til liðs við sig ýmsa fastagesti, svo sem Ben Affleck , Joey Lauren Adams og Jason Lee en þetta eru allt nöfn sem maður þekkir vel hafi maður séð einhverjar af Kevin Smith myndunum. Í millitíðinni er bara að bíða eftir því að J&SBSB komi í kvikmyndahús heima á klakanum.