Clash of the Titans er mynd sem ætti að vera svo tryllt skemmtileg að þér gæti ekki verið meira sama um galla sem snerta persónusköpun, frásögn eða jafnvel slæm samtöl. Ég var algjörlega reiðubúinn því að horfa á myndina með því hugarfari að sjá eitthvað hraðskreitt, epískt og töff, enda var það einmitt það sem sýnishornin gáfu til kynna að maður ætti að gera. Svo byrjaði myndin og smám saman fór ég að útiloka orðin "epískt" og "töff," og í staðinn fékk ég bara stanslausan kjánahroll. Og frekar en að njóta ferðarinnar byrjaði ég að finna fyrir meira afþreyingargildi í klukkunni á símanum mínum.
Ég skal gefa Louis Leterrier (sem seinast gerði The Incredible Hulk) gott orð fyrir að meina vel, því hann virðist setja sér það einfalda markmið að reyna að skemmta áhorfendum út þessar 100-og-eitthvað mínútur, sem er að sjálfsögðu mjög jákvætt, fyrir utan það að hann nánast slátrar öllu sem viðkemur öðru en hasar, brellum og upplýsingarflæði. Það er nefnilega ekkert skemmtilegt við bíómynd sem fer með plottið (eins grunnt og hallærislegt það þegar er) eins og stökkpall fyrir hasar og persónurnar sem einungis peð fyrir atburðarásina, þar sem hver og einn segir einungis og gerir það sem handritið ætlast til af þeim, án þess að áhorfandinn fái að kynnast þeim eða jafnvel halda með þeim. Þetta gerir alla myndina rosalega kalda. Góð saga og persónusköpun er auðvitað ekki skylda þegar maður fer á afþreyingarmynd, en það fer að breytast í stóra kröfu þegar söguþráðurinn er eins og eitthvað úr slöppum þrautatölvuleik (Perseus – aðalpersónan – gerir ekkert nema að flakka á milli staða til að safna upplýsingum og berjast við miserfið kvikindi, sem að sjálfsögðu endar með bardaga við *endakallinn* ógurlega) og það eina sem greinir persónurnar í sundur eru oftast kynin þeirra – og flestar persónurnar eru einmitt karlkyns, þannig að þið getið ímyndað ykkur hvað leikararnir fengu lítið til þess að vinna úr. Ég hataði líka hvað sumar aukapersónur (Pegasus meðtalinn) birtust bara oft skyndilega á hinum asnalegustu tímum, bara vegna þess að sagan þurfti á þeim að halda þá. Ekkert pælt í hvernig þær komust þangað eða hversu ólíkleg nærvera þeirra væri.
Leterrier kann samt á hasar. Hann má eiga það. Bara verst að hann kann ekkert á spennuuppbyggingu eða flæði. Stundum klippir hann hratt á milli (sem þýðir að maður sér ekkert hver er að berjast við hvern, eða hvaða sporðdreka) en oftast vantar bara allt adrenalín í hasarinn. Það nægir ekki bara að vera með brellur og hávaða. Mér fannst líka ófyrirgefanlegt hvað Kraken-senurnar voru stuttar eftir alla þessa uppbyggingu. Annars, ef allur þessi hasar hefði verið geggjaður þá hefði ég verið meira til í að fyrirgefa því sem gerist inn á milli, og þar kem ég að stærsta vandamálinu: Handritið er nánast algjört rusl. Burtséð frá veikri persónusköpun og bjánalegri sögu almennt þá eru samtölin á tíðum svo slök að maður fær illt í eyrun. Senur þar sem samtöl koma mikið við eru líka svo hryllilega illa leikstýrðar og besta dæmið mun vera atriðið með örlaganornunum. Ég trúi ekki að Herkúles-teiknimyndin frá Disney hafi tekist að gera þær meira ógnandi heldur en þessi mynd. Fyndnast finnst mér samt vera hvernig handritið meðhöndlar baksögu Perseusar. Við fáum aðeins einhverjar tvær-þrjár afar ómerkilegar senur með (fóstur)fjölskyldu hans og þá er ætlast til að við strax skiljum tengslin hans við hana, og sérstaklega föður sinn, sem mikið er vísað í. Svo gerist það (og ath. þetta er EKKI spoiler) að familían er drepin fyrir framan hann og áhorfandinn finnur hvorki fyrir sorginni né reiðinni þar sem við fengum að kynnast henni álíka vel og næsta látbragðsleikara úti á götu.
Það var samt smotterí sem mér tókst að líka vel við. Það er t.d. ómögulegt að neita því hvað myndin lítur vel út. Brellurnar eru einnig mjög flottar (nema í Medusu-atriðinu... Hvað skeði eiginlega??) og tónlistin þjónar umhverfinu vel. Hvað leikarana varðar er voða lítið hægt að segja um þá. Þeir Liam Neeson og Mads Mikkelsen voru langskástir því þeir gerðu eitthvað meira með sína karaktera heldur en bara standa/labba/hlaupa um og segja línurnar sínar. Ralph Fiennes hefur sjaldan verið eins áberandi latur og það kemur mikið á óvart hvað Sam Worthington er mikið í sínum venjulega Avatar-karakter. Bara ímyndið hann í hermannafötum og þá mynduð þið aldrei halda að hann væri í öðru hlutverki. Stelpurnar komu samt verst út að mínu mati. Gemma Arterton bókstaflega kemur bara og fer án þess að maður finni eitthvað fyrir því að hún sé að leika, og Alexa Davalos nær aldrei til manns í hlutverki sem er að mínu mati eitt það allra mikilvægasta. Mestöll sagan snýst í kringum Andromedu og ég gæti talið senurnar með henni upp með annarri hendi. Mínusstig? Öh, já!
Sumir spyrja sig kannski: Hvernig stenst svo nýja myndin samanburð við þá gömlu? Sjálfur hef ég í rauninni enga hugmynd því ég hef ekki séð hana í meira en áratug. Ég man samt hvað mér fannst hún ómerkileg því ég hef ekki minnstu löngun til að kynna mér hana aftur. Það er sniðug hugmynd að taka þá mynd og búa til nýja, enda eldist hún hræðilega. Það er svo fullt hægt að gera með efniviðinn líka. Eftir að hafa horft á þessa er ég farinn að syrgja fjármagnið sem fór í hana svo ekki sé minnst á fagfólkið fyrir framan vélarnar.
Ég bjóst aldrei við því að ég myndi nota þessi orð, en kíkið frekar á Percy Jackson ef þið viljið skemmtilegri 2010-mynd sem fiktar með gríska goðafræði.
3/10
PS. Þrívíddin er DRASL! Ég ætti frekar segja ykkur að sjá myndina í 2D í staðinn, en ég myndi hvort eð er aldrei segja neinum að eyða pening í hana.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei