Náðu í appið
Bönnuð innan 16 áraMyndin getur valdið ótta hjá eða er ógnvekjandi fyrir ung börnÍ myndinni er ljótt orðbragð

Pandorum 2009

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 20. nóvember 2009

Don't fear the end of the world. Fear what happens next.

108 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 30% Critics
The Movies database einkunn 28
/100

Tveir geimfarar vakna upp í yfirgefnu geimskipi og komast að því sér til mikillar skelfingar að þeir eru ekki einir í skipinu. Þeir muna ekkert. Hverjir eru þeir? Hvað eru þeir að gera í skipinu?

Aðalleikarar

Ljótt, grimmt og subbulegt? Endilega!
Jahérna! Talandi um sci-fi mynd sem fær sínar hugmyndir lánaðar frá öðru efni. Það er svosem ekkert óalgengt fyrir geimævintýri að vísa í aðrar myndir af svipuðu tagi en Pandorum er eins og einn stór leikur sem kallast: Spottaðu myndina! Hún vísar bæði í og tekur frá öðrum kvikmyndum, þáttum og meira að segja fáeinum tölvuleikjum. Á meðan ég horfði á myndina sá ég glitta í m.a. Event Horizon, Firefly, The Descent, Alien, Aliens, Pitch Black og Dead Space. Stíllinn á henni er hrárri en í flestum "torture-porn" myndum og ofbeldið nógu subbulegt til að fá Alexandre Aja til að líta undan. Nú, ef þetta hljómar eins og eitthvað sem þú hefur gaman að þá get ég lofað þér að þú munt springa af gleði.

Sjálfum fannst mér Pandorum alveg ágæt, þrátt fyrir bullandi ófrumleika. Handritið er kannski ekki vitund ferskt þótt maður verði að velta fyrir sér hversu mikil vinna fer í það að taka SLATTA af öðru efni og móta það niður í eina heilsteypta bíómynd. Handritshöfundurinn er kannski lélegur þjófur en hann kann að leggja áherslu á það sem skiptir máli í afþreyingarmynd. Ég er eiginlega hálf hissa yfir því hvað myndin heldur prýðisgóðum dampi og átti ég þ.a.l. mjög erfitt með að láta mér leiðast yfir henni. Leikstjórinn spilar líka með innilokunarkennd og myrkur og nýtir sér það eins og hann mögulega getur til að skapa óþægindatilfinningu. Sá fílingur virkar að ýmsu leyti þótt það kallist seint einhver hæfileiki að minnka lýsingu eða búa til bregðuatriði, og það er nóg af þeim hérna. Sum eru ófyrirsjáanleg, en flest ekki.

Ef það er eitthvað sem ég hata meira en lélega hrollvekju og ömurlega grínmynd, þá er það lélegt sci-fi, og Pandorum hefði léttilega getað fallið í þann hóp. Hins vegar spilar hún meira með skemmtanagildi heldur en hugmyndir og passað er upp á það að hún sé nógu sjúk og ógeðsleg til að maður fari ekki að pæla of mikið í persónusköpun eða lógíu. Hraðinn hjálpar mikið til, þótt ég hafi að vísu náð að "fatta" lokafléttuna löngu áður en handritið uppljóstraði henni. Mér datt það líka í hug eftir fyrstu 5 mínúturnar að við ættum eftir að fá smá "twist" í lokin. Söguþráðurinn býður einhvern veginn upp á það, og maður sér í gegnum það.

Ég fór samt ekki á þessa mynd með annað markmið en að njóta ógeðisins, og aðdáendur viðbjóðs fá nóg af því. Þetta er ekta mynd til þess að horfa á að kvöldi til með fullt af vinum sem hlæja á réttum stöðum og klappa stöðugt hvert ofbeldisfulla drápið á eftir öðru. Auk þess hefði vel mátt gera verra en að hafa Ben Foster í aðalhlutverkinu, sem er í raun margfalt betri leikari en margir halda. Dennis Quaid hefur mér alltaf þótt vera viðkunnanlegur leikari en hann er búinn að vera á sjálfsstýringu síðan ég man ekki hvenær. Ég er líka orðinn rosalega þreyttur á þessum Cam Gigandet (illmennið úr Never Back Down og Twilight - sem lítur út eins og genetísk blanda af Paul Walker og Hayden Christensen), sem aldrei hættir að brosa.

Annars, ágætt stöff... Ekkert til að eigna sér í DVD/Blu-Ray hilluna þó.

6/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Hryllileg mynd, á vondan hátt
Aðvörun, gæti innihaldið spilli eða spoilera.

Eftir að hafa tekið eftir því að hin glænýja "Pandorum" fékk 7.1 á IMDB var ég sannfærður um hvaða mynd ég ætti að horfa á næst. Ég er sjálfur mikill aðdáandi Alien(s), Pitch black og jafnvel Event Horizon, en þetta eru allt góðar myndir sem Pandorum er sögð taka það besta úr.

Vel má vera að Pandorum taki það besta úr þessum æðislegu myndum sem ég nefndi áðan en eitthvað hefur mistekist að nota það í myndina, reyndar gruna ég sterklega að Christian Alvart og Travis Milloy hafi farið á fyllerí eftir samningin við Constantin Film Produktion og týnt þessu besta. Í staðinn hafi þeir, á sama bar, fundið sér leikara, tökumenn og bara allt starfsliðið eins og það leggur sig.

"Ó mig auman", stundi ég upphátt, þegar 30 mínútur voru liðnar af myndinni. Á þeim tíma hafði ég séð undarlegar verur með blá vasaljós á höfðinu hlaupa um á ógnarhraða, dularfulla stríðskonu og loftræstikerfi fyllt með garðslöngum. Hryllingsmynd var þetta, bókstaflega, og ekki á góðan hátt.

Það fyrsta sem ég tók eftir voru þessar undarlegu verur sem komu alltaf hlaupandi. Núna þegar ég skrifa þetta rennur upp fyrir mér ljós og það er að verurnar voru aldrei labbandi eða í neinum rólegheitum. Öll atriði með verunum gengu út á það að tekið var upp atriði í einhverju löngu rými eins og gangi. Mannverurnar voru þar á miðjum ganginum og alltaf komu verurnar hlaupandi frá þeim enda gangsins sem mannverurnar voru að koma frá. Upphófst þá mikið hlaup en leikararnir hljóta að hafa verið í fantaformi eftir myndina.

Vondu verurnar voru leikarar í einhverskonar latexbúningum. Auðvitað voru vondu verurnar alveg mökkljótar eins og gengur og gerist í hryllingsmyndum. Því var þó haldið leyndu fyrir áhorfandanum 99% af myndinni með því að klippa hratt fram og til baka á þessar vondu verur, hrista myndavélina og spóla áfram þegar verurnar voru lengur en sekúndu í mynd. Gerði þetta það að verkum að manni leið eins og maður væri að horfa á myrkvaða stop-motion mynd á skipi í stormi. Það var engin leið að gera sér grein fyrir hvað væri að gerast í bardagaatriðum, hvert fólkið væri að hlaupa og hversu langt fyrir aftan það verurnar væru. Það var klippt þarna hratt á milli sem endaði alltaf með því að þau voru komin í nýja sviðsmynd og var þá ný persóna kynnt til leiks.

Þarna kom ég með þetta, uppskriftina að myndinni.

1. Sviðsmynd 1, út úr hött óskipulögð hvelfing sem myndi ekki eiga heima í stærsta geimskipi framtíðarinnar
2. Geimverur eru að koma úr myrkrinu því einhver blá ljós nálgast
3. Öskur og hlaup
4. Sviðsmynd 2, önnur út úr hött óskipulögð hvelfing
5. Tilgangslaust spjall í nokkrar mínútur og við hittum nýja tilgangslausa persónu.
6. Geimverur eru að ko.... omg.


Leikstjórinn hefur væntanlega áttað sig á því um miðbik myndarinnar hversu fáránlegt það er að vondu verurnar séu með blá útileguljós á hausnum og því fjarlægt batteríin. Allt í einu voru allavega ekki lengur blá ljós á fleygiferð í myrkrinu.

Sviðsmyndirnar sem ég nefndi áðan líta ágætlega út á köflum. Þó eru þær óraunhæfar og virðist handritshöfundurinn einblínt á að vera með eina sviðsmynd þar sem viðkomandi eru í klóakinu, aðra þar sem allt er skjannahvítt og hreint, þriðju þar sem rýmið er risastórt án þess að þjóna sérstökum tilgangi, en allt án þess að íhuga hvernig tengslin ættu að vera á milli þessara sviðsmynda. Persónurnar einfaldlega hlaupa og birtast í sviðsmyndunum og eru búnar að stinga vondu verurnar af sem eru þó miklu fljótari og fimari en mannverurnar.

Leikararnir fá eitt orð, sæmilegt. Það er ekkert sem stendur upp úr þarna nema dauflegar díalógur sem þjóna engum tilgangi í myndinni og koma flestar líflausar frá leikurunum.

Núna er ég nánast búinn að ljúka við rífa sundur allt við myndina en það er eitt sem stendur eftir, sagan.

Sjálf grunnsagan, mjaðmagrindin í myndinni, er í fínasta lagi og bara nokkuð góð. Það er framkvæmdin, frágangurinn og allt það sem ekki er grunnsagan sem er með eindæmum slappt.

Myndin fær 2 stjörnur hjá mér af 10 mögulegum og það er eitthvað sem ég get rökstutt. Hún fær eina stjörnu fyrir byrjunina á sögunni, sem skortir ekki mikið og eina stjörnu fyrir endirinn á sögunni sem var forvitnilegur en einnig til þess fallinn að ég loksins gat slökkt á myndinni og horft á eitthvað meira spennandi, eins og stillimynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

27.06.2010

Timberlake dansari í spor Bacons

Jæja, þá er loksins farið að glitta í endurgerð dansmyndarinnar Footloose frá árinu 1984 sem skaut Kevin Bacon kyrfilega upp á stjörnuhimininn. Búið er að ráða mann í aðalhlutverkið, Ren, og er það enginn annar en Ke...

Svipaðar myndirSkrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn