Náðu í appið
Bönnuð innan 16 áraÍ myndinni er ljótt orðbragð

Gamer 2009

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 16. október 2009

In the near future, you don't live to play... you'll play to live.

95 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 29% Critics
The Movies database einkunn 27
/100
Golden Trailer Awards 2008 VANN: Besta stikla

Gamer gerist í framtíðinni þar sem tölvuleikjaheimurinn er orðinn svo klikkaður að fólk getur stjórnað öðru fólki eins og að stjórna tölvuleikjafígúrum. Gerard Butler leikur mann sem er fastur í slíkum leik sem nefnist Slayers, og stefnir hann að því að brjótast út úr þessu tölvuleikjaumhverfi áður en hann verður drepinn. Hefst þar með barátta... Lesa meira

Gamer gerist í framtíðinni þar sem tölvuleikjaheimurinn er orðinn svo klikkaður að fólk getur stjórnað öðru fólki eins og að stjórna tölvuleikjafígúrum. Gerard Butler leikur mann sem er fastur í slíkum leik sem nefnist Slayers, og stefnir hann að því að brjótast út úr þessu tölvuleikjaumhverfi áður en hann verður drepinn. Hefst þar með barátta upp á líf og dauða.... minna

Aðalleikarar

Ágæt þvæla og skondin satíra
Gamer er ekki beinlínis baðandi í frumleika. Hugmyndin minnir mikið á tvær aðrar myndir sem gerðu heldur ekkert nýtt: Death Race (sem var endurgerð) og hina nýlegu Surrogates (sem stal miklu frá I, Robot og Ghost in the Shell ásamt öðru). Það glittir kannski smá í The Running Man líka þegar maður hugsar út í það. En þrátt fyrir að falla þann hóp af "séð-þetta-allt-áður" myndum, þá er leikstjóratvíeykinu Neveldine & Taylor (heilarnir á bakvið Crank-myndirnar) bókstaflega ekkert heilagt og er helsta ætlunarverk þeirra að gera hverja einustu senu eins brjálaða og yfirdrifna og hægt er, sem setur mjög sérstakan svip á myndina. Stundum verður maður að efast pínulítið um geðheilsu þessara manna þar sem að þeir finna ávallt leið til að troða brjóstum og subbulegu ofbeldi inn í hvaða atriði sem er. Síðan er myndatöku- og klippingarstíllinn stundum svo ótrúlega kaótískur að jafnvel Tony Scott sjálfur fengi hausverk á því að horfa á þetta. Í alvöru talað, ég held að kamerumaðurinn hafi verið flogaveikur og klipparinn með ADHD.

Sem betur fer er Gamer ekki alveg eins sturluð og Crank 2 (enda þyrfti MIKIÐ til), en þar sem að þessi mynd var tekin upp á undan kemur það ekki á óvart. Leikstjórarnir keyra myndina samt á ofsahraða og setja sér engar reglur, sem var frekar skemmtilegt að mínu mati. Þegar fílingurinn er svona yfirdrifinn er mjög erfitt að átta sig á því hvert myndin stefnir stundum. Eina stundina getur Gerard Butler verið í miðjum skotbardaga og þá næstu getur Michael C. Hall verið að taka óvænt dansspor. Það er ótakmarkað hvað Neveldine & Taylor leika sér mikið og ég hafði bara mjög gaman af því. Ég sá fyrir mér frá upphafi að þessi mynd ætti eftir að fylgja sömu formúlu og Death Race, en svo kom í ljós að hún gerði ýmislegt sem ég átti ekki von á, á góðan og slæman hátt.

Ég mun aldrei kalla þetta góða spennumynd, en afþreyingargildið er alls ekki slæmt. Rétt eins og Surrogates þá er þessi mjög augljós þegar kemur að ádeilunni á samfélagið, nema hún kryddar boðskapinn meira og ýkir hann á verulega sjúkan hátt. Tónlistarvalið stendur einnig upp úr og ýtir undir brjálæðið. Það er t.d. eitthvað svo súrt við það að heyra lögin The Bad Touch með Bloodhound Gang og I've Got You Under My Skin í sömu bíómynd.

Gerard Butler gerir annars ekkert annað en að vera hann sjálfur, eins og við erum farin að þekkja hann, nema hann sleppir bröndurunum í þetta sinn. Smá persónusköpun hefði ekki drepið myndina en hún hefði greinilega haft áhrif á flæðið samkvæmt leikstjórunum. Butler er kannski svalur, en ógurlega persónuleikalaus. Hann skiptist á milli þess að vera alvarlegur, grimmur og... fullur. Annars var ég mjög ánægður með Dexter. Hann gerði akkúrat það sem hann átti að gera: leika illmennið á yfirdrifinn hátt og hann gerði það með stæl. Það var gaman að fylgjast með honum fyrir utan það að hann hverfur úr myndinni í góðan hálftíma einhvern tímann upp úr miðju. Mjög leiðinlegt.

Neveldine & Taylor setja sér einfalt markmið, og þrátt fyrir að vera karlrembur dauðans þá eru myndirnar þeirra ætlaðar til þess að vera séðar í góðri stemmningu með félögum og kassa af bjór. Það er áberandi að þeir séu bara að reyna að skemmta áhorfendum sínum. Þ.e.a.s. þeim sem kunna að meta svona klikkun. Svona týpur af bíómyndum eru alls ekki fyrir hvern sem er, og miðað við hvernig konur eru sýndar hérna tel ég afskaplega ólíklegt að femínistafélögin séu sátt. En hraðskreitt testósterón-drifið fjör hefur sjaldan skaðað einhvern, og þótt ég ætli ekki alveg að mæla með Gamer þá vil ég undirstrika það að ég hafði nokkuð gaman að vitleysunni sem hún er. Efa samt að ég nenni að sjá hana aftur í bráð.

6/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn