Aðalleikarar
Leikstjórn
Handrit
Þá er það þokan ógurlega eftir meistara John Carpenter. Það dýrka auðvitað allir Carpenter fyrir myndir á borð við The Thing og In The Mouth of Madness. Því miður hefur hann hinsvegar ekki náð að fylgja eftir þessum klassísku myndum á síðari tímum. Ghosts of Mars var t.d. ekki að gera sig. Hér er Capenter hinsvegar á hátindi ferilsins, á milli Halloween og Escape From New York. Og hvernig bragðast þessi villibráð?
Þessi mynd er ánægjuleg að horfa á, ekki síst út af hinni frábæru Jamie Lee Curtis, sem var einmitt í Halloween. Adrianna Barbeau var ennþá betri sem kynþokkafulla útvarpskonan. Sterka karlmannstýpan var leikin af Tom Atkins sem var bara ágætur. Sem hryllingsmynd er The Fog mjög væg. Það er ekki dropi af blóði og það deyja allt of fáir. Vandamálið er líka að þokan og það sem er í þokunni var ekki að hræða mig fyrir fimmaura. Draugar sem banka á hurðina eru ekki mjög sannfærandi að mínu viti. Svo er enginn hissa á því að fullt af draugum séu að birtast allt í einu. Sagan var ofur einföld og persónur vanþróaðar. Samt sem áður eru Carpenter töfrarnir til staðar. Tónlistin er dáleiðandi enda gerð af Carpenter sjálfum og flytur mann strax inn í hans veröld. Byrjunin var líka fullkomin, gamall maður að segja draugasögur við varðeldinn. Þessi er bara fyrir aðdáendur John Carpenter, öðrum mun líklega leiðast.
“Sandy, you're the only person I know who can make, yes ma'am, sound like screw you.”