Náðu í appið
Bönnuð innan 16 áraÍ myndinni er ljótt orðbragð

Slumdog Millionaire 2008

(Viltu Vinna Milljarð?)

Frumsýnd: 16. janúar 2009

Love and money... You have mixed them both.

120 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 91% Critics
The Movies database einkunn 84
/100
Átta Óskarsverðlaun. Besta mynd, leikstjórn, handrit, kvikmyndataka, klipping, tónlist, lag og hljóðvinnsla.

Jamal er 18 ára munaðarleysingi sem hefur búið í fátækrahverfi í Mumbai á indlandi og er um það bil að fara að upplifa stærsta dag ævi sinnar. Hann fær að taka þátt í indversku útgáfunni af Viltu vinna milljón? og gengur betur en hann þorði að vona. Þegar hann er aðeins einni spurningu frá því að vinna 20 milljón rúpíur er hann hins vegar handtekinn,... Lesa meira

Jamal er 18 ára munaðarleysingi sem hefur búið í fátækrahverfi í Mumbai á indlandi og er um það bil að fara að upplifa stærsta dag ævi sinnar. Hann fær að taka þátt í indversku útgáfunni af Viltu vinna milljón? og gengur betur en hann þorði að vona. Þegar hann er aðeins einni spurningu frá því að vinna 20 milljón rúpíur er hann hins vegar handtekinn, því stjórnendur þáttarins hafa enga trú á því að drengur úr fátækrahverfinu geti vitað svona mikið. Jamal þarf að sanna sakleysi sitt, en eina leiðin er að segja lögreglunni og stjórnendum þátt- arins ævisögu sína. Þar kemur í ljós röð atburða sem varpa ljósi á óvænta vitneskju hans í þættinum, og kynnist áhorfandinn ótrúlegu lífshlaupi hans. Stóra spurningin er þó: af hverju vill Jamal taka þátt í þættinum ef það er ekki fyrir peningana?... minna

Aðalleikarar

Leikstjórn

Handrit


Við Haddi skelltum okkur á þessa í bíó. Miðvikudagstilboð í Laugarásbíó eru ljúf, verst að sætin eru óþægileg. Eins og flestir vita þá er þessi mynd byggð á gríðarlega vinsælli skáldsögu Vikas Swarup með sama titil. Ég las aldrei þá bók en ég býst við að ég myndi horfa á myndina öðrum augum ef svo væri. Myndin snýst, eins og ég býst líka við að allir viti, um dreng (Jamal Malik) sem keppir í leiknum Viltu vinna milljón á Indlandi. Það er hinsvegar aukaatriði þar sem þetta er í raun ástarsaga í dulargervi án þess að ég fari nánar út í það. Það er farið í gegnum sögu Jamals í gegnum hans eigin frásögn og það fannst mér vera skemmtilegstu hlutar myndarinnar. Maður fær létt menningarsjokk þegar farið er djúpt inn í fátækrahverfi Indlands og það er sýnt hvernig farið er með þessa krakka. Þau gera það sem þarf til að lifa af og eru ótrúlega úræðagóð en það er samt sorglegt að horfa upp á þetta. Myndatakan og tónlistin er á köflum hröð og áhrifamikil og maður sogast inn í Indland. Myndin er stórgóð en mín uppáhalds Danny Boyle mynd er þó ennþá Trainspotting.

Ég stend við minn spádóm um að The Curious Case of Benjamin Button muni vinna skaraverðlaun fyrir bestu mynd í ár. Ég get samt ekki ákveðið mig hvora ég myndi sjálfur velja. Ég myndi hinsvegar velja The Wrestler yfir báðar.

Í leiknum er mest hægt að vinna 20.000.000. Skv. glb.is er rúpían ca. 2,35 sem gerir um 47 mkr. ISK. Ég vill því hér með mótmæla þessari íslensku þýðingu “Viltu vinna milljarð”!!

Þegar þetta er skrifað er myndin nr. 34 í sæti yfir bestu myndir allra tíma á imdb með 8,7 í einkunn. Hún er tilnefnd til 10 óskarsverðlauna, samt fékk hún ENGAR tilnefningar fyrir leik.

Einn frægasti leikari Indverja úr Bollywood Amitabh Bachchan kemur höfuðlaus fram í myndinni. Hann var víst fyrsti gestgjafinn í indversku útgáfunni af viltu vinna milljón.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Boyle hækkar sífellt í áliti
Slumdog Millionaire er skemmtilega öðruvísi "feel-good" mynd. Myndin er alfarið hrá í útliti, stundum ofbeldisfull, stundum spennandi, stundum sorgleg, en síðustu mínúturnar eru svo ánægjulegar að það er erfitt að vera ekki pínu heillaður af sögunni. Umfram allt er þetta falleg, vel sögð og hlý saga sem heldur manni sífellt áhugasömum um framhaldið, og leikstjórnin í umsjón Danny Boyle er svo ákaflega þétt að hann á fyllilega skilið allt það hrós sem hann hefur fengið.

Boyle er greinilega meðvitaður um það að frásagnarháttur sögunnar er örlítið klisjukenndur, en hann bætir því upp með alveg hreint meiriháttar stíl sem brennimerkir myndina og gerir upplifunina á henni e.t.v. margfalt ánægjulegri.
Persónulega hefur mér alltaf þótt Boyle vera tiltölulega vanmetinn, hingað til allavega. Hann er allavega einn af bestu svokölluðu "genre" kvikmyndagerðarmönnum starfandi í dag. Fjölbreytileiki hans í hinum ýmsu geirum er afar auðséður, en hann hefur t.d. gert dópistamynd (Trainspotting), svarta kómedíu (A Life Less Ordinary - fáránlega vanmetin mynd að mínu mati), fjölskyldumynd (Millions), hryllingsmynd (28 Days Later...), vísindaskáldskap (Sunshine) og núna með Slumdog færir hann okkur bræðing af raunsæju drama og rómantískri fantasíu. Ég bíð bara eftir að sjá hann tækla söngleikjageirann...

Ég grínast ekki með það að Slumdog sé ein af flottustu myndum ársins 2008 hvað tæknilega vinnslu varðar. Kvikmyndatakan er stórfengleg, klippingarnar ávallt lifandi, aldrei of ákafar og tónlistarnotkunin er helber snilld. Boyle hefur sjaldan klikkað á því að velja tóna sem fullkomlega smella og Slumdog er stútfull af flottri tónlist sem styrkir flestar senur ásamt klikkað skemmtilegum montage-senum. Lokakreditlistinn er einnig alveg yndislega eftirminnilegur og setur akkúrat réttan svip á myndina í lokin með virkilega flott uppsettu dansatriði (að hætti Bollywood auðvitað).

Það er kannski fínt að taka það fram að ég hef ekki lesið bókina, Q & A, sem myndin er byggð á. Mér skilst að bókin sé gerólík myndinni hins vegar, en ég get engan veginn metið muninn. Engu að síður voru nokkrir hlutir við myndina sjálfa sem fóru í mig. Ekkert of alvarlegt, en nóg til að koma í veg fyrir hærri einkunn. Myndin gengur út á ástir og örlög, og það kemst vel til skila. Samt var ég aldrei neitt hlynntur parinu sjálfu. Jamal Malik - lykilpersónan - var frábær karakter og aflaði sér auðveldlega samúðar og stuðnings áhorfandans. Hann var gríðarlega viðkunnanlegur og kom vel út á flestan hátt. Ég var ekkert alltof ánægður með Latiku, kvenpersónuna. Það komst aldrei til skila hvað það var við hana sem gerði Jamal svona hrifinn af henni. Hún vera þurr og á köflum leiðinleg persóna sem kom illa fram við góðan náunga. Þegar leið að því að áhorfandinn átti að hvetja ást þeirra áfram, þá var ég ekkert alltof flæktur í það. Mórallinn komst samt vel til skila og undir einhverjum ástæðum var sagan ekkert síður ánægjuleg þegar leið á endann.

(Smá spoiler)

Ég geri mér einnig grein fyrir því að myndin er meira fantasía en nokkuð annað, og augljósu tilviljanirnar í sögunni eru gott dæmi um það. Ég skal sætta mig við það að flestar spurningarnar í Viltu vinna milljón-þættinum birtust langflestar í nákvæmlega sömu röð og persónan upplifði svörin í. Það tók samt vel á trúverðugleikann hvað lokaspurning þáttarins (upp á 20 milljónir rúpía) var furðulega auðveld, en kannski er það bara ég, enda horfði ég MJÖG oft á The Three Musketeers myndina frá '93 með Kiefer Sutherland þegar ég var yngri.

(Óhætt núna)

Það væri annars synd að minnast ekki á leikinn, en hann var almennt frábær, frá hverjum og einum (m.a.s. krökkunum - viti menn!). Fremstur meðal jafningja er vissulega Dev Patel í hlutverki Jamals. Boyle hefur alltaf verið með gott auga fyrir sterkum "nýliðum," en þið ættuð kannski að muna að guttar eins og Ewan McGregor og Cillian Murphy urðu fyrst frægir eftir að hafa unnið með honum.

Ég mun ekki ganga þá leið að kalla Slumdog Millionaire eitthvað meistaraverk, en hún er virkilega góð og frábærlega unnin mynd sem skilur ýmislegt eftir sig. Þetta er ein af þessum myndum sem þú vilt eiga í DVD/Blu-Ray safninu þínu og horfa á reglulega. Soundtrack-ið er líka möst!

8/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

02.04.2024

Eins manns her - Villimannslegur stórsigur

Fyrirsögn fjögurra stjörnu dóms netmiðilsins Games Radar um fyrstu kvikmynd Slumdog Millionaire leikarans Dev Patel sem leikstjóra, hasarmyndina Monkey Man, sem kölluð hefur verið John Wick í Mumbai, lýsir myndinni sem Villi...

31.12.2020

Stjörnurnar sem kvöddu okkur á árinu

Fjölmargir þekktir einstaklingar víða kvöddu okkur á árinu 2020; fólk sem hafði getið af sér gott orð í listaheiminum. Í hópi þeirra sem létust má nefna tónskáld á heimsmælikvarða, nokkrar skærustu leikko...

15.04.2018

Sá eini sem kann Bítlalalögin

Breski poppsöngvarinn vinsæli, Ed Sheeran, 27 ára, er sagður vera um það bil að landa hlutverki í nýrri kvikmynd um hljómsveitina Bítlana, eftir handriti Richard Curtis. Myndin á að heita All You Need Is Love, eftir sam...

Svipaðar myndirSkrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn