Fyrirsögn fjögurra stjörnu dóms netmiðilsins Games Radar um fyrstu kvikmynd Slumdog Millionaire leikarans Dev Patel sem leikstjóra, hasarmyndina Monkey Man, sem kölluð hefur verið John Wick í Mumbai, lýsir myndinni sem Villimannslegum stórsigri (e. Savage Triumph). Myndin sé krefjandi, æsandi og kreysti úr manni alla orku.
Gagnrýnandinn tekur ofan fyrir Patel og segir að þessi dásamlegi drengur úr verðlaunakvikmyndinni Slumdog Millionaire hafi þroskast upp í að verða hörkuflott kvikmyndastjarna, líkt og þegar sandi er hent framan í strák á leikvellinum, sem ákveði að hefna sín, fara í ræktina, byggja sig þar upp og snúa til baka sterkari en nokkru sinni fyrr.
Barinn í buff með apagrímu
Og ef horft sé á Monkey Man sem myndlíkingu – sem verði að gera þar sem Patel leikur ekki einungis aðalhluverkið heldur leikstýrir, framleiðir og er einn handritshöfunda – þá er eins og þessi strákur af leikvellinum hafi ekki bara farið í ræktina heldur æft sig í bardagalistum og orðið vopnasérfræðingur, allt til þess að breyta sjálfum sér í eins manns her.
Þegar við kynnumst aðalhetju kvikmyndarinnar, Kid, í tilbúnu indversku borginni Yatana þá er hann með apagrímu og verið er að berja hann miskunnarlaust á neðanjarðarslagsmálastað af Tiger, sem leikinn er af Sharlto Copley.
Nafnlaus ungur maður fer í hefndarför gegn spilltum glæpamönnum sem myrtu móður hans og víla ekki fyrir sér að níðast á fátæku og saklausu fólki....
Kid er þjakaður af slæmum minningum úr æsku en hinn grimmi lögregluforingi Rana myrti móður hans. Rana er stjórnað af spilltum stjórnmálamönnum sem eru í slagtogi við andlega leiðtogann Baba Shakti.
Kid er á botni virðingarstigans í landinu og það hefur enn frekar kynt undir reiði hans. Og núna er allur þessi sársauki og öll þessi ólga um það bil að brjótast fram. Kid heldur því af stað í hrikalega hefndarför.
Games Radar segir að Monkey Man sé gríðarlega áköf. Jafnvel of áköf á köflum en áhorfendur eru þjónustaðir með tveggja tíma hasar þar sem frábær hljóðhönnun og klipping, nærmyndir af leikurum og gruggugum brúnum og jarðvegs-gulum litum eru áberandi. Áhrifin af þessu öllu geti gert mann ringlaðan og ollið velgju, en til þess sé leikurinn gerður. Og þá er ekki endilega verið að tala um slagsmálin, þau eru svo sýnd í nærmynd og við upplifum næstum því eins og við séum orðin þátttakendur í æsilegum bardögum.
Of mikið af því góða?
Games Radar spyr hvort hægt sé að fá of mikið af hinu góða? Mögulega, en myndinni svo sannarlega tekst að slá þig kalda/n. Og þó að Patel fái hér ýmislegt lánað úr myndum eins og Commando, Rambo og Bruce Lee kvikmyndum, auk The Raid og John Wick, þá setur hann söguna í nógu menningarlegan búning til að hún sé fersk, en sósíal-realisimi, indverskar goðsagnir og fleira kemur allt þar við sögu. Þetta er villimannslegur stórsigur, klikkir Games Radar út með.
Monkey Man kemur í bíó 5. apríl á Íslandi.