Hahahahaha!! Þessi mynd er svo óviljandi fyndin að það hálfa væri nóg. Þó mig langi til að fá þessa tvo tíma og 900 krónurnar til baka, þá er ég að pínulitlu leyti sáttur með að hafa séð þessa mynd, því að hún er svo léleg að ég met aðrar myndir miklu hærra. ATH: Textinn gæti innihaldið spoilera (ekki það að það skipti máli)!
Sagan er klisjukennd, heimskuleg og óraunveruleg og hrein móðgun að líkja henni við 300. Þær eiga ekkert sameiginlegt. Aðalpersónan er hvítur víkingadrengur sem alinn er upp af indíjánum, eftir að hann varð viðskila við skrímslið föður sinn í ránsferð víkinga til Ameríku er hann var barn. Indíjánarnir (sem by the way eru einhverjir þeir heimskustu sem sést hafa á hvíta tjaldinu), hafa enn ekki samþykkt hann í hópinn og er hann í bömmer yfir því. En svo gerast hræðilegir atburðir og hópur blóðþyrstra og ómannlegra norðurlandabúa (einhverskonar blanda Norðmanna, Íslendinga og Svía af ólíkum tungumálum þeirra að dæma) gerir strandhögg í þorpinu hans meðan hann er á veiðum. Víkingarnir (án nokkurrar sýnilegrar ástæðu) drepa og pynta alla íbúana sem allir eru svo aumir og heimskir að þeir geta ekki veitt neina mótspyrnu. Svo mætir kappinn á staðinn og tekur æðiskast, þar sem hann ákveður að elta uppi víkingana og drepa þá einn af öðrum. Með frumstæð verkfæri að vopni, þroskaheftan hjálparkokk og einhverskonar yfirskilvitlega vitsmuni býr hann til fjöldan allan af gildrum til að klekkja á óvininum sem leiðir til (óviljandi) fyndnasta atriði myndarinnar, en það er þegar víkingarnir eru við það að detta ofan í felligildru að teiknimyndastíl, þá stekkur fram hópur af nautheimskum indíjánum sem lenda í gildrunni (sem er skrítið því indíjánarnir eiga að gjörþekkja þetta svæði og ef ég man söguna rétt voru indíjánar miklir gildrusmiðir, þ.e. veiddu bjarndýr ofl.) En allavega nær kappinn að bjarga deginum að lokum, einn síns liðs, eitthvað sem hópur af þrautþjálfuðum indíjánabardagaköppum gat ekki.
Myndin er uppfull af heimskulegum plott-holum sem gerir hana að algerri vitleysu sem skilur eftir sig mjög margar spurningar og er að mínu mati móðgun við sæmilega þenkjandi fólk. Hún ætti að fá fýlukall í kladdann en hlægileg heimska indíjánanna og fáránleg samtöl víkinganna á ólíkum tungumálum eru svo fyndin að hún fær hálfa fyrir það.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei