Firna sterk mynd. DiCaprio er firnagóður í hlutverki sínu sem demantasmyglari eina stundina, vopnasmyglari aðra og síðan einkahermaður þegar það hentar honum. Hann kynnist blaðamanninum Jennifer Connelly í Freetown höfuðborg Sierra Leone. Djimon Honusou er þriðja aðalpersónan, en skæruliðar RUF réðust á þorpið hans, stökktu konu hans og dætrum á flótta, tóku son hans höndum og gerðu að barnahermanni, en hann sjálfan tóku þeir og létu þræla í demantanámu. Í námunni finnur hann að lokum stóran demant sem á eftir að koma við sögu og nær að fela hann áður en náman er tekin yfir í árás hermanna ríkisstjórnar landsins. Með öðrum orðum, sögusvið myndarinnar er borgarastríðið í Sierra Leone þar sem skæruliðar RUF börðust við stjórnarhermenn, frömdu fádæma hræðileg hryðjuverk, limlestu og drápu fólk í stórum stíl, stálu börnum fólks og gerðu strákana að hermönnum en dæturnar að hjákonum, en foreldrana drápu þeir. Svo hræðilegar voru aðfarir RUF að á endanum var hildarleikurinn stöðvaður af alþjóðasamfélaginu, en að jafnaði bregst það ekki þannig við. Það sem myndin segir er saga þriggja persóna sem voru þarna á svæðinu þegar þetta allt gekk á. DiCaprio sem er orðinn þreyttur á því lífi sem hann hefur lifað, blaðamaðurinn sem vill ná í fréttina sem loks mun hafa eitthvað að segja og svarti maðurinn sem einfaldlega vill sameina aftur fjölskyldu sína. Allar þær hörmungar sem koma fram í bakgrunninum eru sannleikanum samkvæmar. Skæruliðar RUF voru sannarlega eins slæmir eins og lýst er í myndinni. Fólk gat virkilega þurft að taka á stóra sínum til að lifa af í kringum þá. Styrrjaldir eru einfaldlega svona, þær framkalla bæði það besta og það versta í manninum. Menn sem enginn átti von á að gerðu slæma hluti gera þá allt í einu, og öfugt menn sem enginn átti von á að gerðu nokkurt rétt allt í einu gerast hetjur. Ég veit að sumum finnst þetta vera voðalega klisjukennt, en svona er þetta barasta stundum. Atburðarásin er að mínu mati algerlega trúverðug, handritið firnasterkt og leikur allra óaðfinnanlegur. Ég reikna með allavegna tveim til þrem óskurum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei