Náðu í appið

Band of Brothers 2001

Fannst ekki á veitum á Íslandi

They depended on each other. And the world depended on them.

600 MÍNEnska

Sagan af Easy fylkinu í Seinni heimsstyrjöldinni.

Aðalleikarar


ÞÁTTUR 1: Currahee
Líkt og hver einasti upphafsþáttur í sjónarpsseríu þá fjallar fyrsti þátturinn aðallega um persónusköpun, Band of Brothers er sería stútfull af ýmsum sannsögulegum hermönnum og miðað við það þá gefur þátturinn nokkuð góða heildarmynd yfir mennina. Aðalpersónurnar fá auðvitað mesta skjátímann, þeir Winters (Damian Lewis), Nixon (Ron Livingston) og Lipton (Donnie Wahlberg) en í stóru hlutverki kemur David Schwimmer sem Sobel yfirliðþjálfi Easy flokksins. Þátturinn byrjar þann fjórða júní 1944 en í gegnum endurlit þá er Easy flokkurinn í þjálfunarbúðum í Toccoa undir stjórn Sobels og byggist alveg upp að innrásinni á Normandí. Eftir þennan þátt þá viltu sjá meira, það er komið í ljós hve vandaður og vel gerður þáttur þetta er meðal þess að fjalla um eitt það mest magnþrungna tímabilið í sögu mannkyns. Leikararnir passa allir í hlutverk sín enda voru þeir valdir miðað við hve líkir alvöru mönnunum þeir voru, samt skondið að megnið af leikurunum eru Bretar að leika Kana. Jafnvel Schwimmer nær að leika sannfærandi asna sem ég bjóst ekki við eftir hans æviferil í Friends. Currahee er mjög góður upphafsþáttur fyrir seríu, og góð byrjun fyrir þætti sem verða aðeins betri.
ÞÁTTUR 2: Day of Days
Annar þátturinn einbeitir sér aðallega, ólíkt fyrsta þættinum á orrustusenum, það er byrjað á innrásinni í Normandí og hér sést í fyrsta skiptið orrusta í þáttaröðinni, innrásin sjálf er glæsilega vel gerð en þrátt fyrir tölvubrellur sem mögulega standast ekki alveg við nútímakvikmyndir þá er innrásin svo raunverulega framkvæmd að þér líður eins og þú sért viðstaddur. Hráa aðferðin sem sást í Saving Private Ryan er notuð en hér jafnvel betur, eða allavega ekki verr. Þátturinn virkar einnig eins og hliðstæða við opnunarsenuna í Saving Private Ryan þar sem þátturinn fjallar um sama atburð aðeins núna sýnt frá hlið Easy flokksins. Kynntur er til sögunnar önnur aðalpersóna, Spiers (Matthew Settle), nett brjálaður hermaður sem er annaðhvort mjög gáfaður og hugrakkur eða byssuóður brjálæðingur. Innihaldið blómstrar ekki eins vel og í fyrsta þættinum en raunveruleikinn bakvið stríðið og hætturnar sem persónunar gangast undir gera þáttinn merkilegann. Annar þátturinn heldur strikinu fyrir því sem eftir á að koma.
ÞÁTTUR 3: Carentan
Þriðji þátturinn tekur mjög óvenjulega stefnu, í stað þess að halda áfram að fylgjast með aðalpersónunum þá verður þungamiðja sögunnar gersamlega ný persóna sem hefur ekkert verið kynnt til sögunnar áður. Sú peróna er óbreyttur hermaður Blithe að nafni, mjög sérstakur hermaður sem hefur engar stríðstilhneigingar að neinu leiti, hann talar sjaldan og öðrum hermönnum finnst hann vera ófélagslyndur. Ég held að tilgangurinn með þessum þætti er að sýna hvernig stríð getur haft mismunandi áhrif á fólk og hvernig fólk bregst við hættur uppá líf og dauða. Þriðji þátturinn hefur einnig uppá á bjóða mest spennandi og blóðugustu bardaganna í allri seríunni, það er hérna í fyrsta skiptið sem ég fann fyrir hræðilega raunveruleika stríðsins jafnt og persónurnar í þættinum þar sem vinir þeirra eru byrjaðir að deyja, hægri og vinstri. Carentan er einn af betri þáttunum, gæti jafnvel talist besti þátturinn í Band of Brothers ef það væri ekki fyrir mjög harða samkeppni við suma jafngóða kafla í seríunni. Carentan er skref upp frá öðrum þætti, og er fyrsti þátturinn til þess að sýna sálfræðina bakvið stríðið. Að lokum vil ég minnast á það að í lokatextunum þá segist að Blithe hermaðurinn hafi dáið árið 1948 af sárum sínum, í raun þá dó hann ekki þar til árið 1967 af náttúrulegum orsökum.
ÞÁTTUR 4: Replacements
Fjórði þátturinn fjallar um Operation Market Garden og hve misheppnuð sú tilraun var til þess að komast fyrr inn í Þýskaland til þess að sigra Nasistanna. Líkt og þátturinn á undan þá eru aðalpersóurnar ennþá fjarverandi að mestu leiti en nú er einbeitt sér að nánast hverjum einasta manni í Easy flokknum, sumum aðeins meira en öðrum en þá aðallega Bull Randleman, einum virtasta og gáfaðasta hermanni í Easy flokknum sem lendir í mjög einstökum aðstæðum í þættinum. Mér fannst fjórði þátturinn, þrátt fyrir að vera mjög góður, hegða sér eins og fylling inn á milli þriðja og fimmta þáttar þar sem eini verulegi tilgangur þáttarins var að fjalla um eitt stærsta herverkefni stríðsins og ekkert fjallað um aðalpersónurnar. Það er gott þó að fá að sjá og vita að það eru ekki aðeins aðalpersónurnar sem skipta máli, ég held að mikilvægi fjórða þáttarins sé að sýna það að Easy flokkurinn er meira en bara þeir þrír hæstsettu heldur hver einasti maður í flokknum. Það eru miklar breytingar milli þátta en enginn verulegur gæðamissir, Replacements er mögulega veikasti hlutinn í seríunni en býsna andskoti góður þrátt fyrir það.
ÞÁTTUR 5: Crossroads
Nú er fókusinum aftur stillt á aðalpersónurnar, eða frekar á Winters sem hefur nýlega verið hækkaður um tign og þarf að skrifa skýrslur um sín fyrri verkefni og er meðal þess sendur í frí til París. Þetta er fyrsti þátturinn til þess að sýna einhverskonar eftirsjá hjá hermanni um gjörðir sínar í átökum, og það kemur fram mjög áhrifamikið í Crossroads. Sálfræðilega ástand mannana er nú byrjað að hrörna á einhvern áberandi hátt þar sem þeir eru sendir í lokin til Bastogne í Belgíu að vetri til þar sem einhver lengstu og blóðugustu átök áttu sér stað í öllu stríðinu. Crossroads þjáist ekki af neinni miðjumynda complex, þátturinn að engu leiti veikari en neinn annar í seríunni heldur þvert á móti er þetta einn af þeim betri. Svo er það enginn annar en Tom Hanks sem leikstýrði þessum þætti, fyrsta skipti sem ég sé eitthvað eftir hann, miðað við gæði þáttarins þá segi ég að hann er mögulega jafn góður leikstjóri og hann er leikari.
ÞÁTTUR 6: Bastogne
Í Bastogne er allt farið til andskotans, Easy flokkurinn hefur engin vetrarklæði og varla nein skotfæri til þess að verja sig. Margir hafa dáið og fleiri eru særðir en þeir sem eru ekki dauðir eru annaðhvort að missa sig eða búnir að því. Þetta er þáttur um hreint vonleysi, dauða og ömurleika allt frá sjónarhorni eins sjúkraliða sem heitir Eugene Roe í Easy flokknum. Verk sjúkraliða hefur yfirleitt verið nokkuð falið hlutverk í stríði, allavega þegar það kemur að stríðsmyndum en þeir eru ómissandi þegar það kemur loks að því að einhver særist því í hverri einustu orrustu þá þarf einhver á honum að halda. Verk sjúkraliða er allt nema auðvelt, þeir sleppa við það að þurfa berjast við óvininn en þeir þurfa að hætta lífi sínu til þess að bjarga öllum þeim sem kalla á sig. Vetrarstríð hef ég sjaldan séð í kvikmyndun né þáttum en Band of Brothers gera þá raunverulega og glæsilega vel. Hjálpleysi, vonleysi og óvissa í stríði er það sem þessi þáttur sýnir, og er að mínu mati einn áhrifamesti þátturinn í seríunni og einnig sá besti.
ÞÁTTUR 7: The Breaking Point
Easy flokkurinn er ennþá í Bastogne aðeins núna er stjórnin undir Lt. Dike, gersamlega vanhæfum liðstjóra sem kann ekki að taka ákvarðanir fyrir sveitina sína. Það er engin afsökun til staðar til þess að skipta honum og þar sem hann er í góðum tengslum við hásetta þá getur enginn snert hann. Þátturinn er sýndur gegnum hugsunarástand Liptons, einna næstaráðanda Lt. Dike sem er jafn óánægður með yfirmann sinn og hver annars hermaður í sveitinni. Easy flokkurinn á að taka yfir skóginn kringum bæinn Foy áður en þeir eiga að taka yfir bæinn sjálfan. Ástand mannana í Easy flokknum er að hrörna enn meira og fleiri eru að særast og/eða deyja. The Breaking Point hefur alsvakalegustu sýningu á sprengikrafti sem ég hef nokkurn tíman séð í kvikmyndum/þáttum, sem sýnir enn fremur hve rosalega vandaðir þættir þetta eru, kunnáttan bakvið tæknihönnunina er alveg út í hött hún er svo vel gerð. Sjöundi þátturinn er blanda af nánast öllu sem hefur komið fram áður, þetta er þáttur sem fjallar einfaldlega um það að halda sögunni áfram og koma nýjum upplýsingum fram, svo kemur loks Spiers hálfklikkaði liðforinginn aftur til sögu sem mun reynast mun mikilvægari nú og eftirá en áður.
ÞÁTTUR 8: The Last Patrol
Easy flokkurinn er staddur í Haguenau í Hollandi þegar óbreyttur hermaður Webster að nafni kemur aftur frá spítalanum eftir nokkra mánuði. Gegnum hans augu koma í ljós breytingarnar sem hafa átt sér stað í hans fjarveru, hermennirnir eru orðnir þreyttari, veikari, óáhugasamir og oft þunglyndir og gagnrýnir í átt að Webster. Meðal komu Webster kemur nýr liðþjálfi frá West Point, leikinn af syni Tom Hanks honum Colin Hanks sem á að öðlast smá reynslu áður en stríðinu lýkur. Hann og Webster, báðir ókunnugir eru látnir fara í nýjan leiðangur til þess að ná þýskum föngum fyrir yfirheyrslur. Áttundi þátturinn er að mínu mati veikasti hlutinn í seríunni, það er fátt merkilegt eða nýtt sem kemur fram fyrir utan það að grafið er aðeins dýpra inní sálfræðilega ástand mannana. Þetta er þó eini þátturinn sem endar á björtum nótum, um vonir að stríðið sé að enda, þrátt fyrir að vera veikasti hlutinn þá er hann í toppgæðum fyrir venjulegan sjónvarpsþátt.
ÞÁTTUR 9: Why We Fight
Stríðinu fer að ljúka og Easy flokkurinn er nú í Þýskalandi og nánast allur þýski herinn er að gefast upp. Flestir eru byrjaðir að njóta lífsins, en Nixon fær ekkert nema slæmar fréttir, meðal þeirra frétta er að konan hans fór frá honum og tók hundinn hans, sem pirraði hann mest af öllu. Þátturinn einbeitir sér að mestu leiti hve illa hann er farinn eftir raðir af óhöppum, meðal þess þá er hann hættur að nenna sinna skyldum sínum og fer að efa tilgang sinn í Þýskalandi. Eins og nafnið gefur til að kynna þá fjallar þátturinn líka um tilgang stríðsins, af hverju við berjumst. Hér einnig finnur Easy flokkurinn í fyrsta skipti fangabúðir gyðinga og hve hræðilega var farið með þá. Hermenn Easy flokksins fatta þá að þeir eru ekki þeir einu sem hafa þjást í þessu stríði og sjá að kannski var meira til í að berjast á móti Nasistunum heldur bara pólitískar ástæður. Níundi þátturinn er óneitanlega kröftugur, allt frá frábærri frammistöðu hjá Ron Livingston sem Nixon til magninu af tilfinningalegu uppnámi sem sem þátturinn skapar. Það er þó frekar óþægilegt að kvikmyndagerðamennirnir skulu hafa gert þau slæmu mistök að dagsetja sjálfsmorðs Hitlers nokkrum vikum áður en það í raun gerðist. Það er viðurkennd villa í þáttunum sem ég skil ekki alveg hvernig gerðist, en burtséð frá því þá er Why We Fight alveg rosalegur þáttur í seríunni.
ÞÁTTUR 10: Points
Lokaþátturinn eins og hver annar lokaþáttur gerir, lýkur allri sögunni. Stríðinu er lokið en samt eru vandamál að skapast, og brátt á að senda Easy flokkinn í Kyrrahafsstríðið. Hér byrja leiðir mannana að skiptast, sumir fara heim, aðrir verða áfram í hernum og margir vita ekki hvað þeir eiga að gera. Þátturinn er séður gegnum augu aðalpersónunar Winters, hvað honum finnst, hvað hann ætlar að gera eftir stríðið o.s.f. Sem lokaþáttur þá endar Band of Brothers á fullnægjandi hátt, allri sögunni er steypt saman og í lokin þá finnur þú fyrir allri ferðinni sem hefur átt sér stað hjá Easy flokknum. Allt stríðið, allt blóðið, allt vesenið hefur borgað sig fyrir áhorfandann, því það er mjög auðvelt að setja sig í spor persónanna sem er einn af kostum þáttanna. Ferðin er búin, hringurinn er lokaður, Band of Brothers er allt.
NIÐURSTAÐA:


Band of Brothers er eitt best kvikmyndaða verk í sögu kvikmynda/þátta, þessi sería jafnast á við hvaða stórkvikmyndir hvar sem er í heiminum. Öll tæknivinnsla er stórkostleg, handritin, persónurnar og mannlega hliðin er öll til staðar, hver einasti leikari stendur sig vel og hver einasti þáttur nýtur sér persónurnar vel. Þættirnir eiga sér þann stóra kost að geta gripið áhorfendur og kastað þeim í brjálaðan rússíbana gegnum stríðið í Evrópu með Easy flokknum. Það er ekki verið að líta upp á Kana og niður á Nasista, engin hlið er sett yfir aðra, fjallað er um mistök og hroðaverk allra, bandaríkjamanna jafnt og Nasista á eins sanngjarnan hátt og hægt er. Sögunni er fylgt fram eins ýtarlega og mögulegt sé, þrátt fyrir nokkur mistök. Hér er eitthvað af öllu, stríði, sorg, ást, vonleysi, fyrirlitningu, örvæntingu, hasar og jafnvel glæpum. Það er ómögulegt að einhver geti ekki fílað þessa seríu. Band of Brothers er eina sjónvarpsseríu sem ég man eftir sem á skilið fullkomið fullt hús af stjörnum, því eins og ég sagði, þetta er að mínu mati eitt það stórkostlegasta kvikmyndaða verk í sögu kvikmyndagerðar.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

22.10.2021

Ekki alltaf dans á rósum

Tom Hardy er án efa einn af þekktustu leikurum okkar tíma. Hann hefur leikið í mörgum af frægustu kvikmyndum 21. aldarinnar og er þekktur fyrir fjölbreytta frammistöðu. Leiðin að þessum gríðarlega farsæla ferli var þó...

15.03.2020

Ingvar fór í prufu fyrir Star Wars: „George Lucas hafði ekki efni á mér“

Ingvar E. Sigurðsson, einn þekktasti leikari Íslands, fór í prufu fyrir Star Wars kvikmynd. Þetta var árið 1997 og stóð þá til að sækjast eftir stórri rullu fyrir The Phantom Menace, sem beðið var eftir með g...

29.11.2011

Tom Hanks sendiherra í Þriðja Ríkinu

Playtone, framleiðslufyrirtæki Tom Hanks, hefur ásamt Universal keypt réttinn að bókinni In the Garden of Beasts, eftir Erik Larson. Bókin fjallar um líf William Dodd og fjölskyldu hans, en hann gegndi embætti sendiherra Bandaríkjan...

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn