Ég fór á þessa mynd í bíó fljótlega þegar byrjað var að sýna hana, en treysti mér hins vegar ekki að skrifa um hana fyrr en ég var búin að sjá hana aftur á Video. Myndin segir frá 11 ára strák, David, sem á yfirborðinu lítur út fyrir að vera venjulegur drengur, en er í raun vélmenni. Myndin gerist í framtíðinni og mannkynið treystir orðið á ómetanlega hjálp vélmenna. David er fyrsti sinnar tegundar, og er hann gæddur mannlegum tilfinningum, sem gerir honum m.a. kleift að elska og eiga ósviknar tilfinningar. Hann kemst fljótlega í eigu hjóna og á að koma í stað sonar þeirra sem liggur í dauðadái. Allt gengur vel um sinn, eða þangað til að sonurinn vaknar úr dáinu, og þar með er David vísað á dyr. David stendur nú einn uppi í skringilegri veröld þar sem hann þekkir ekkert til. Hann nýtur þó félagsskapar vélmennisins Gigalo Joe sem er sérhannað til að veita manneskjum fullnægingu, og saman lenda þeir í ýmsum ævintýrum. Ytri útlit myndarinnar er nánast fullkomið. Stórkostlegar sjónbrellur, topp myndataka og tónlistin, sem mér fannst það besta, enda var John Williams réttilega tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir hana. Þrátt fyrir þetta er hún að mínu mati ekki sú stórmynd sem margir vilja meina, því hún nær ekki að halda dampi og síðasti hlutinn er mjög leiðinlegur, langdreginn og allt og væmin fyrir minn smekk. Þótt fyrri hlutinn sé mjög dramatískur og frekar sorglegur (t.d. þegar David er skilinn eftir út í skógi) þá ber hann klárlega með sér Kubrick keim. Þ.e.a.s hún er aldrei væminn því hún hefur ákveðinn drunga yfir sér og er pínulítið creepy á köflum. Hún missir hins vegar allan drunga og verður því afskaplega væminn og endirinn var svo langdreginn að ég spólaði nánast yfir hann allan. Það er greinilegt að Kubrick hefur ekki komið nálægt honum og raunar ótrúlegt að slíkur fagmaður eins og Spielberg hafi samið svona vitleysu. Hann var eiginlega einum of frumlegur (þótt frumleiki sé oftast jákvæður). Leikarar stóðu sig mjög vel og þá sérstaklega Jude Law og Frances O' Connor, en Haley Joel stóð sig einnig ágætlega. Þrátt fyrir þessa galla á myndinni finnst mér að kvikmyndaunnendur ættu ekki að sleppa henni, vegna þess að hún er áhugaverð.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei