Náðu í appið
Bönnuð innan Ekki við hæfi mjög ungra barnaÍ myndinni er sýnd nekt og/eða þar er að finna kynferðislega hegðun eða tilvísanirÍ myndinni er ljótt orðbragð

The Contender 2000

Frumsýnd: 23. mars 2001

Sometimes you can assassinate a leader without firing a shot.

126 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 76% Critics
The Movies database einkunn 59
/100

Eftir að varaforsetinn deyr, þá ákveður forseti Bandarikjanna, sem er að nálgast lok kjörtímabilsins, að gera nokkuð sögulegt, og velja konu í embættið. Sú sem verður fyrir valinu er öldungardeildarþingmaður sem skiptir úr repúblikanaflokknum yfir í demókrataflokkinn. Til að byrja með er hún sem sköpuð í hlutverkið, en síðan fara á kreik sögur... Lesa meira

Eftir að varaforsetinn deyr, þá ákveður forseti Bandarikjanna, sem er að nálgast lok kjörtímabilsins, að gera nokkuð sögulegt, og velja konu í embættið. Sú sem verður fyrir valinu er öldungardeildarþingmaður sem skiptir úr repúblikanaflokknum yfir í demókrataflokkinn. Til að byrja með er hún sem sköpuð í hlutverkið, en síðan fara á kreik sögur um að hún hafi tekið þátt í kynferðislegri orgíu þegar hún var 19 ára skólastúlka. Formaður nefndarinnar sem staðfestir valið á varaforsetanum, sem er Repúblikani, lekur upplýsingunum um þetta til fjölmiðla, og notar umræðuna í fjölmiðlum til að taka málið upp í inntökuferlinu. Formaðurinn vill sjálfur fá ríkisstjóra í embættið. Ríkisstjórinn varð þjóðhetja þegar hann reyndi að bjarga ungri konu úr bíl sem hafði farið fram af brú og í djúpt vatn skammt frá þar sem ríkisstjórinn var við veiðar.... minna

Aðalleikarar

Leikstjórn

Handrit


Góður pólitískur tryllir með toppleikurum í aðalhlutverkum. Myndin fjallar ekki um minni mann en forseta Bandaríkjanna sem velur konu í embætti varaforseta. Maður að nafni Shelly Runyon gagnrýnir valið kröftuglega og reynir með lygum, svikum og prettum að fá annan mann í embættið.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Ég var heima og datt í hug að skreppa út á leigu og taka svona eina mynd. Ég leit í rekkana og sá þessa The Contender hmm.. Jú ég er nú einu sinni hrifin af svona stjórnmáladrama og ætla mér að verða lögfræðingur svo að það væri kannski ágætt að skoða þessa! Og.. ég varð engan veginn fyrir vonbrigðum, myndin er að vísu HÁ pólitísk og tekur á ýmsum málum svo sem kynjamismun!! ég er sjálf mikill Feministi og var stolt af Joan Allen hún leikur hlutverkið vel og gleymir sér ekki, hún verður persónan!! Myndin var tilnefnd til óskarsins fyrir besta karleikara í aukahlutverki. Þessi mynd er ekki fyrir þá sem ekki þola Westwing og þætti í þá áttina. Þú verður að fylgjast með allan tímann og trúðu mér, ekki dæma hana fyrr en hún er búinn! Ég er allveg á því að þessi mynd eigi skilið þrjár og hálfa stjörnu!!! =)
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Vandaður og vel gerður pólitískur spennutryllir eins og hann gerist bestur. Hér er sögð sagan af því er Jackson Evans, forseti Bandaríkjanna (Jeff Bridges) tekur þá örlagaríku ákvörðun að tilnefna fyrstu konuna, öldungadeildarþingmanninn Laine Hanson (Joan Allen) sem varaforsetaefni sitt er sitjandi varaforseti Bandaríkjanna fellur frá rétt fyrir lok seinna kjörtímabils forsetans. Hann sér í því tvenna möguleika, báða mjög góða fyrir hann og arfleifð sína. Hann yrði með því fyrsti forseti Bandaríkjanna til að útnefna konu sem varaforseta sinn og hann yrði með því öruggur partur af stjórnmálasögu sinnar samtíðar, einnig gæti hann tryggt ítök síns flokks áfram í Hvíta húsinu eftir forsetatíð sína, ef hún næði kjöri sem eftirmaður hans. Er val forsetans á henni hefur verið tilkynnt opinberlega koma fram gögn sem greina í smáatriðum frá afar frjálslegum kynferðislegum athöfnum hennar á yngri árum sínum og með því kemst allt í uppnám þar sem Öldungadeild Bandaríkjaþings (sem þarf að staðfesta varaforsetaefni sitjandi forseta) telur slíkt vart hæfa tilvonandi varaforseta Bandaríkjanna. Meðal þeirra sem ganga lengst fram í andúð sinni á vegtyllu hennar er repúblikaninn Shelly Runyon (Gary Oldman), en honum er mjög í nöp við hana og ekki síst fortíð hennar. Hann ákveður að reyna hvað sem hann getur til að spilla fyrir framavonum hennar. Við tekur óvæginn og vægðarlaus hráskinnaleikur sem getur tekið á sig allar myndir og það kemur að því að enginn er óhultur, hvorki varaforsetaefnið né sitjandi forseti og valdhafar í Hvíta húsinu. Hér smellur allt saman til að skapa hina einu sönnu pólitísku spennumynd. Leikstjórn Rod Lurie, handritið, tónlistin og kvikmyndatakan eru hreint afbragð. En það er leikur þriggja leiksnillinga sem stendur uppúr öllu öðru í þessari kvikmynd. Joan Allen fer alveg á kostum í hlutverki öldungardeildarþingmannsins og varaforsetaefnisins Laine Hanson, sem fer með aðalhlutverkið og hlaut að launum afar verðskuldaða óskarsverðlaunatilnefningu sem besta leikkonan í aðalhlutverki 2000. Hún hefur sjaldan verið betri (var að vísu einnig frábær í NIXON (þar sem hún lék forsetafrúna Pat Nixon) og The Crucible (einnig tilnefnd fyrir þær báðar). Hún er ein af þeim leikkonum sem verður betri og betri með hverri mynd og ég vona innilega að hún muni vinna óskarinn innan nokkurra ára (það er svo sannarlega kominn tími til að hún fái hann). Sama má segja um úrvalsleikarann Jeff Bridges sem hlaut óskarsverðlaunatilnefningu í aukaleikaraflokknum fyrir magnaðan leik sinn á sjálfum forsetanum. Hann er alltaf mjög góður leikari og hann átti tilnefninguna svo sannarlega skilið. Síðast en ekki síst er Gary Oldman sem er alveg frábær í hlutverki klækjarefsins Shelly Runyon sem reynir ALLT til að koma fyrir það að Laine Hanson verði næsti varaforseti Bandaríkjanna. Oldman hefur aldrei leikið betur á sínum magnaða ferli og átti að hljóta óskarsverðlaunatilnefningu fyrir stórleik sinn. Einnig eru þeir Christian Slater, Sam Elliott, Philip Baker Hall og William L. Petersen mjög góðir í sínum hlutverkum. Semsagt; hér er á ferðinni kraftmikil, spennandi, vönduð, afar vel leikin og raunsæiskennd úrvalsmynd sem nefnir hlutina réttum nöfnum. Alls ekki missa af henni!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Áður en ég felli dóm um kvikmyndina sjálfa get ég ekki látið hjá líða að bera fram kvörtun við Háskólabíó (þar sem Contender er sýnd) vegna þýðingarinnar. Hún er ekki góð. Það er hreinlega fyrir neðan virðingu Háskólabíós að bjóða áhorfendum upp á þessi vinnubrögð. (Dæmi: Skammstöfunin POTUS (President of the United States) er á einum stað þýdd sem "POST", sennilega með vísun í dagblaðið Washington Post. Fleiri (mun fleiri) dæmi mætti tína til um slæleg vinnubrögð. Annars er myndin ekkert sérstaklega leiðinleg, þökk sé afar sterkum leik þeirra Jeff Bridges, Joan Allen og Gary Oldman. Reyndar má segja að þessi mynd sé á vissan hátt eins og tveggja tíma útgáfa af sjónvarpsþættinum "The West Wing" sem nú er verið að sýna í Ríkissjónvarpinu. Og í þeirri samlíkingu liggur einmitt það sem ég tel vera höfuðgallann við þessa mynd: Hún reynir of mikið til að fá mann á sitt band, meðal annars með grunnri persónusköpun og klisjukenndum atriðum. "Vondi kallinn" er að sjálfsögðu Repúblikani (Oldman) sem lifir fyrir valdabrölt og er á móti konum, forsetinn er Demókrati, og jafnvel þó hann sé útsmoginn pólitíkus, þá erum við rækilega látin vita af því að hann hafi hjartað á réttum stað. Við eigum að trúa því að aðalpersónan (Allen) standi svo fast á sínum prinsippum - (að einkalíf stjórnmálamanna komi engum við - sem reyndar er hægt (og búið) að rökræða) - að hún sé jafnvel tilbúin til að láta rústa lífi sínu og orðspori fyrir það prinsipp, jafnvel þó hún hafi órækar sannanir fyrir "sakleysi" sínu. Og þegar við fáum að vita að hún hefur verið þingmaður og pólitíkus í langan tíma, þá verður þessi afstaða hennar enn ótrúverðugri. Atburðir síðustu ára tengdir forsetaembættinu og Clinton eru óspart notaðir í myndinni - og virðast raunar vera kveikjan að henni. Myndin var frumsýnd í Bandaríkjunum í nóvember síðastliðnum, rétt fyrir forsetakosningarnar, og þessi tímasetning virkar eins og myndin hafi átt að vera innlegg í þá umræðu sem þá fór fram, meðal annars um arfleifð Clintons. Og þegar tekið er tillit til þess að í myndinni er samúðin öll með persónum sem eru Demókratar, þá spyr maður sig óneitanlega hvort tilgangur hennar hafi verið að hafa áhrif á skoðanamyndun kjósenda.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Ég hafði mjög gaman af The Contender og það gladdi mig mjög þar sem ég hef sérlega gaman af pólitískum þrillerum sem sverja sig í ætt við All the President's Men. Það er talsverður munur á þessum tveimur myndum en fyrir fólk eins og mig sem hefur áhuga á stjórnmálum og eru að flytja til Washington þar sem báðar myndir gerast er þetta meðal bestu myndategunda. Leikstjórinn Rod Lurie er hér að gera sína fyrstu "professional" kvikmynd og stendur sig mjög vel. Hann er líka heppinn með að hafa fengið þennan frábæra hóp leikara til að túlka persónurnar sem hann skapar í handriti sínu. Joan Allen er hörkugóð leikkona sem einn góðan veðurdag mun öðlast þá frægð og viðurkenningu sem hún á skilið. Því miður á hún eftir að tapa Óskarnum að þessu sinni til Juliu nokkurrar Roberts. Allen er gífurlega sannfærandi sem öldungadeildarþingmaðurinn Laine Hanson, sem forsetinn (Jeff Bridges) hefur valið til að taka við embætti varaforseta eftir að forverinn deyr. Repúblikaninn Shelly Runyon (Gary Oldman, gjörsamlega óþekkjanlegur einu sinni enn) er lítt hrifinn af frúnni og gerir hvað sem er í sínu hlutverki sem formaður nefndarinnar sem á að samþykkja Hanson til að spilla fyrir henni. Myndin er óhrædd við að taka atburði undanfarinna ára og hegðun Clintons og nýta sér það til að kynda undir spennunni. Spurningin er: Skiptir einkalíf frambjóðenda máli ef þeir geta á annað borð sinnt sínu embætti? The Contender tekur mjög vel á þessu máli og skilar spennandi og áhugaverðri mynd, þó hún verði svolítið amerísk á stundum. Leikhópurinn er óaðfinnanlegur. Allen, Bridges (bæði Óskarstilnefnd) og Oldman koma sterk út í sínum hlutverkum. Sam Elliott, Saul Rubinek, Mariel Hemingway, Kathryn Morris og Mike Binder eru sömuleiðis góð. Hinn vanmetni William Petersen má vera stoltur af sinni frammistöðu, og jafnvel Christian Slater kemst skammlaust frá sínu í hlutverki þingmanns (Hverjum datt annars í hug að hann væri maðurinn í það hlutverk?? Sköpunargleðin á fullu, greinilega.) Í heildina séð er þetta góð mynd sem auðvelt er að hafa gaman að og ekki er verra að hún fær mann til að pæla aðeins í málum sem flestar kvikmyndir komast aldrei nærri.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

22.03.2012

Grípandi túlkun á endurunninni sögu

Eins og gengur og gerist með bíóaðlaganir á vinsælum bókum (hvað þá seríum) getur það skipt heilmiklu máli upp á álit manns á myndinni að gera hvort bókin hafi verið lesin eða ekki. Þeir sem hafa lesið The H...

Svipaðar myndirSkrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn