Aðalleikarar
Leikstjórn
Handrit
Hreint kostuleg kvikmynd sem lýsir sambandi þriggja systra sem gera sitt besta til að lifa lífinu og fást þær við allt sem lífið hefur uppá að bjóða. Þær berjast í gegnum súrt og sætt og þær hafa símann til að tengjast systraböndum. En svo eiga þær ellihruman og erfiðan föður, Lou (Walter Matthau) sem reynist þeim oft erfiður. En það er næstelsta systirin, Eve (Meg Ryan) sem axlar mestu ábyrgðina. Georgia (Diane Keaton) hugsar mest um eigin frama en hún hefur fullt í fang með að stýra sínu eigin tímariti sem heitir einfaldlega, GEORGIA. Og Maddy, (Lisa Kudrow), yngsta systirin lætur leiklistina ganga fyrir eða þannig sko. En hún leikur í vinsælli sápuóperu. Eve er því eina systirin sem sinnir föður sínum að einhverju ráði. Enda hringir Lou eingöngu í hana þegar eitthvað bjátar á og það getur líka tekið á taugarnar þar sem hann er orðinn mikill gleymskukall. En þegar Lou þarf að leggjast inná spítala verða allar þrjár systurnar að sýna sameiginlega ábyrgð í verki. Og þrátt fyrir alvöru málsins að þá er það hláturinn sem tengir systurnar saman og svo má auðvitað ekki gleyma símanum því hann gegnir mikilvægu hlutverki í lífi þeirra og það sem meira er, hann tengir þær enn sterkari böndum. Systur verða systur. Myndin er byggð á samnefndri skáldsögu Deliu Ephron (Sleepless in Seattle og You´ve Got Mail) sem leikkonan Meg Ryan fór eftirminnilega á kostum í. Einnig samdi systir Deliu, Nora Ephron handritið að hinni ógleymanlegu "When Harry Met Sally" sem kom þeim Billy Crystal og Meg Ryan á kortið sem alþjóðastjörnum og og varð það hreint einstök mynd. Delia Ephron byggir sögu sína á samskiptum við föður sinn en þau notuðu símann óspart, og byggir systratengslin á samband sínu við systur sínar. Þetta kemur líka vel fram í myndinni og eru uppákomurnar margar hverjar mjög skondnar. Menn hafa líkt þessari mynd við "The First Wives Club" enda ef til vill ekki skrýtið þar sem í aðalhlutverki eru þrjár magnaðar leikkonur á mismunandi aldri. Leikstjóri myndarinnar er óskarsverðlaunaleikkonan Diane Keaton, en þetta er önnur kvikmyndin í fullri lengd sem hún leikstýrir auk þess sem hún leikur eitt aðalhlutverkið ásamt gæðaleikkonunum Meg Ryan og Lisa Kudrow. Diane hefur m.a. farið á kostum í kvikmyndunum The Godfather 1-3, Reds, Marvin´s Room, Sleeper, Play it Again, Sam, Manhattan, The Manhattan Murder Mystery, Unstrong Heroes (sem hún leikstýrði), Father of the Bride 1 og 2, Love and Death, Baby Boom, The First Wives Club og besta kvikmyndahlutverk er hlutverk Annie Hall, í samnefndri klassamynd Woody Allen, sem hún hlaut óskarsverðlaunin fyrir sem besta leikkona í aðalhlutverki 1977. Meg Ryan er þekktust fyrir leik sinn í þeim kvikmyndum sem ég nefndi fyrr í pistlinum en einnig í When A Man Loves a Woman, French Kiss, Addicted to Love og City of Angels. Lisa Kudrow er best þekkt úr sjónvarpsþáttunum óborganlegu Friends sem verða alltaf vinsælli með hverju árinu, en meðal kvikmynda hennar eru Analyze This, The Opposite of Sex, Romy & Michelle´s High School Reunion og Numbers. Óskarsverðlaunaleikkonan Cloris Leachman birtist í smáu hlutverki móður systranna Pat, og fer hún á kostum að vanda. Hún hlaut óskarinn árið 1971 sem besta leikkona í aukahlutverki fyrir leik sinn í kvikmyndinni óviðjafnanlegu og klassísku The Last Picture Show. Þau fara öll á kostum en senuþjófur myndarinnar er án nokkurs vafa óskarsverðlaunaleikarinn óviðjafnanlegi Walter Matthau (í sínu síðasta kvikmyndahlutverki) sem lést í dag, 1. júlí 2000, 79 ára gamall og á að baki einn virtasta leikferilinn í Hollywood og er hann hiklaust einn af bestu gamanleikurum Bandaríkjanna á seinni hluta tuttugustu aldarinnar. Þennan kostulega leikara þarf varla að kynna. Hann lék eftirminnilega á móti félaga sínum, Jack Lemmon í myndunum The Odd Couple (sú fyrri var óborganleg), The Fortune Cookie (sem hann hlaut óskarinn fyrir sem besti leikari í aukahlutverki 1966), Grumpy Old Men myndunum, Out To Sea, Sunshine Boys, The Grass Harp og Kotch. Walter Matthau lék í 75 kvikmyndum á glæstum leikferli sínum sem spannaði rúma hálfa öld. Hann hlaut óskarinn eins og fyrr sagði fyrir hlutverk sitt í The Fortune Cookie og var tilnefndur til verðlaunanna fyrir leik sinn í myndunum The Odd Couple, A Guide for the Married Man, Kotch, Sunshine Boys og Plaza Suite. Hann var einnig frábær í Dennis the Menace, I.Q., Hello Dolly, Cactus Flower, The Front Page, California Suite, JFK og I´m Not Rappaport. Einkar svipmikill leikari sem verður sárt saknað á næstu árum og verður hans sérstaklega minnst fyrir ógleymanlega túlkun sína á kostulegum karakterum sem settu sterkan svip á kvikmyndirnar sem hann birtist í. Einstakur leikari sem ég persónulega dáðist sérstaklega af fyrir að koma mér ævinlega í gott skap. Ég mun sakna gamla mannsins mikið á næstu árum. En semsagt; kvikmyndin "Hanging Up" stóðst væntingar mínar og vel það og mun væntanlega verða minnst í framtíðinni fyrir meistaraleik þeirra leiksnillinga sem í henni birtast. Meg Ryan, Diane Keaton, Lisa Kudrow og Walter Matthau tryggja ósvikna skemmtun. Hún er gamansöm, mannleg og dramatísk og mæli ég eindregið með henni við alla kvikmyndaunnendur sem vilja skemmta sér konunglega. Þessi er sko vel þess virði að kíkja á. Óborganleg kvikmynd sem gleymist seint sökum meistaraleiks aðalleikaranna
Áður en maður sér myndir eins og Hanging Up þá ákveður maður fyrirfram að hún verði hvorki góð né léleg, bara svona ágætis afþreying. Yfirleitt eru þessar myndir svona tveggja-stjörnu myndir sem maður gleymir strax eftir að hafa séð þær, stundum eru þær betri, stundum verri. Hanging Up er verri. Hún er leiðinleg, tilgerðarleg, illa leikin, yfirgengilega væmin, fyrirsjáanleg, ófyndin og pirrandi! Að svona mynd skuli hafa verið gerð er óskiljanlegt! LES ENGINN HANDRIT NÚ TIL DAGS??? Ég fatta þetta ekki alveg. Mynd eins og Hanging Up hefði aldrei átt að verða til, ekki nema með miklum handritsbreytingum - eins og t.d. að skrifa það allt upp á nýtt með áhugaverðum, frumlegum persónum og sleppa öllum 50s-Hollywood-stjörnu bröndurunum sem einkenna myndir Noru Ephron. Myndin segir frá þremur systrum sem öllum gengur vel í lífinu en þær hafa lítinn áhuga á dauðvona föður sínum og verður systirin sem Meg Ryan leikur að sjá um hann gegn vilja sínum. Þetta er svona rauði þráður myndarinnar og hann hefði getað virkað hefði myndin verið sjálfri sér samkvæm og ekki flakkað út um allt á alla hugsanlega staði með hverju tilgangslausu atriði á eftir öðru tilgangslausu atriði sem skiptir nákvæmlega engu máli í heldarfrásögninni. Flest þessi atriði eru um einhver vandamál nú og þá (já, það er mikið af "flashback" atriðum) en þessi vandamál virðast skipta svo litlu máli síðar meir að ég get ekki ímyndað mér af hverju þau eru í myndinni. Kannski vegna þess að þau voru í bókinni sem myndin er byggð á? Örugglega. Dramað í þessari mynd er einnig hundónýtt; systurnar gráta mikið, muna eftir erfiðum dögum, eiga saman tilfinningaríka stund þar sem þær tala um gamlar leikkonur og enda allt saman vel með alveg ótrúlega tilgerðarlegu atriði þar sem allir verða vinir í lokin. Meg Ryan er léleg í hlutverki sínu og lítur út eins og hún kíki í "The Hollywood Book of Acting" á milli taka. Lisa Kudrow er ekki nógu mikið í myndinni til að hægt sé að hafa skoðun á henni og svo er það Diane Keaton. Guð minn almáttugur, Diane Keaton! Ekki nóg með það að hún hafi leikstýrt þessari hörmung heldur leikur hún einnig í henni - og það ILLA! Keaton er svo léleg, svo hallærisleg, svo TILGERÐARLEG OG ÖMURLEG að mér var illt í hvert skipti sem ég sá hana. Ekki misskilja mig, ég hef ekkert á móti Diane Keaton (kannski núna) en hún var svo óeðlilega glötuð í þessari mynd að ég veit ekki hvað. Mikill hluti myndarinnar fer í það að systurnar tala í síma, skella á og hlæja að ófyndnum bröndurum (Keaton hlær mest og gerir það illa). Annað gera þær ekki. Þær rífast einu sinni og gera það illa líka, sérstaklega af því að atriðið er svo illa skrifað. Walter Matthau leikur líka í þessari mynd, og spurningin "af hverju?" brennur á vörum mér. Og að þetta skuli hafa verið síðasta myndin hans... talandi um óheppni! Ég get ekki mælt með þessari mynd fyrir "mömmurnar", þ.e. target-áhorfendurna sem þessi mynd var gerð fyrir, vegna þess að mömmu minni þótti þessi mynd frekar léleg og sofnaði yfir henni. Hanging Up er léleg mynd og hæfilegra nafn á hana væri: Walking Out.
Um myndina
Leikstjórn
Handrit
Framleiðandi
Sony Pictures Home Entertainment
Aldur USA:
PG-13
Frumsýnd á Íslandi:
26. maí 2000