Aðalleikarar
Leikstjórn
Handrit
Að öllum líkindum ein ofmetnasta mynd allra tíma en hefur þó þann kost helstan að Jack Nicholson fer á kostum í bráðskemmtilegu og vel pældu aukahlutverki. Að öðru leyti ekki nema klaufaleg tilraun til að fegra hippamenninguna með sögu um tvo vel þenkjandi iðjuleysingja og dópsala. Vel leikin en engan veginn meira en tveggja stjörnu virði - aðallega vegna snilldartakta Nicholson. Ef þið ætlið einhverra hluta vegna að sjá myndina, veljið þá breiðtjaldsútgáfuna - myndin er annars gjörónýt í "fullscreen" útgáfunni.
Sígild og næstum sagnfræðileg gullaldarheimild um hippaheimspeki sjöunda áratugarins. Hér segir af blómabörnunum Billy (Dennis Hopper) og Wyatt (Peter Fonda) sem leggja uppí ferð til að skoða gervalla Ameríku. Sú verður þeirra síðasta. Þeir verða loks fórnarlömb þess hugsunarháttar sem börðust á móti. Á leiðinni kynnast þeir fjölmörgum skrýtnum landanum, m.a. þeirra er George Hanson (Jack Nicholson), en hann er lögfróður drykkjurútur sem ákveður að slást í för með þeim félögum. Hiklaust, ein af mest stefnumótandi myndum sjöunda áratugarins og jafnvel kvikmyndasögunnar, enda eru eftirlíkingarnar af henni orðnar óteljandi. Kostaði smáaura en halaði inn milljónum dollara og varð ein af vinsælustu kvikmyndum sjöunda áratugarins og hefur unnið sér merkan sess í kvikmyndasögunni. Dennis Hopper og Peter Fonda fara á kostum í hlutverkum ferðafélaganna og óskarsverðlaunaleikarinn Jack Nicholson (One Flew Over The Cuckoo´s Nest, Terms of Endearment, As Good As It Gets) er hreint ógleymanlegur í hlutverki George Hanson. Það hlutverk færði honum frægð og frama og frelsaði hann undan samstarfi hans við B-myndaleiksjórann Roger Corman, en Jack Nicholson lék í flestum mynda hans á sjöunda áratugnum. Það var ekki fyrr en hann leysti af annan leikara í Easy Rider að hann komst út úr B-mynda leiknum hjá Corman, en þær voru ódýrar fljótheitamyndir sem gerðar voru til að fylla upp í þegar A-myndir voru sýndar með annarri mynd. Þetta gerðist þegar farið var að bjóða upp á tvær myndir í stað einnar í kvikmyndahúsunum. Framhaldið þekkja flestir; Jack Nicholson er nú við dögun nýrrar aldar einn af bestu og virtustu leikurum Hollywood og hefur þrívegis hreppt óskarsverðlaunin fyrir leik sinn; 1975, 1983 og 1997. Dennis Hopper sýnir snilldartakta í þessari mynd, ekki bara sem annar af aðalleikurum myndarinnar heldur sem leikstjóri hennar og er hann einnig handritshöfundur hennar ásamt Peter Fonda og Terry Southern. Heldur afar vel sínum upphaflega sjarma og er enn í dag meistaraleg úttekt á þessum róstursama áratug þegar blómabörnin voru uppá sitt besta. Ætti að vera flestum ágæt upprifjun eða upplifun. Ég gef tímamótamyndinni "Easy Rider" fjórar stjörnur og mæli eindregið með að allir þeir kvikmyndaunnendur sem ekki hafa enn séð hana drífi í því sem fyrst. Ekki missa af þessari ógleymanlegu kvikmynd! Upp með friðarmerkið!!
Um myndina
Leikstjórn
Handrit
Peter Fonda, Sandra Ellis Lafferty
Framleiðandi
Columbia Pictures
Aldur USA:
R