Berenger í bíóhús

Það eru ár og dagar síðan bíómynd með Tom Berenger í aðalhlutverki rataði í kvikmyndahús en 21. september næstkomandi mun „American Dresser“ verða frumsýnd vestanhafs í völdum kvikmyndahúsum en á sama tíma verða fáanleg á VOD leigum.

Það er þónokkuð síðan myndin var fullkláruð en það tók sinn tíma að finna dreifingaraðila og fyrirtæki að nafni Cinedigm tók sénsinn á henni. Þetta er fyrsta kvikmynd leikstjórans Carmine Cangialosi en hann hefur þegar leikstýrt stökum þáttum í seríum eins og „Blue Bloods“, „Rescue Me“ og „Guiding Light“ svo dæmi séu tekin. Að hans sögn er „American Dresser“ mótorhjólamynd og innblásturinn er fenginn frá sígildum myndum eins „Easy Rider“ (1969) og „The Wild One“ (1953) og eru þær „góðar myndir sem innihalda mikið af mótorhjólum“ og það er markmið hans með „American Dresser“. Þess má einnig geta að einn af ráðgjöfum myndarinnar er stórsöngvarinn Billy Joel en hann er mikill mótorhjólakappi.

Myndin segir frá John Moore (Berenger) sem er nýorðinn ekkill og á í mikilli tilvistarkreppu eftir fráfall konu sinnar. Hann neyðist til að horfast í augu við drauga fortíðarinnar og ákveður að dusta rykið af hjólinu í skúrnum og halda út á opna veginn í leit að nýjum tilgangi því lífið snýst um „að mjakast áfram einn kílómetra í einu.“

Það eru gleðitíðindi að Berenger skuli skjóta upp kollinum í einhverri sæmilegri mynd því undanfarnir tveir áratugir hafa vægast sagt verið daprir heilt yfir hjá þessum gæðaleikara. Á níunda áratugnum var Berenger frekar stórt nafn og hápunktinum var náð þegar hann fékk óskarstilnefningu fyrir „Platoon“ (1986) og vinsældir hans í hámarki.

Í kjölfarið tók hann mjög meðvitaða ákvörðun um að leika helst í myndum hjá virtum leikstjórum og myndir eins og „Someone To Watch Over me“ (1987, Ridley Scott), „Betrayed“ (1988, Costa-Gavras), „Love at Large“ (1990, Alan Rudolph), „Shattered“ (1991, Wolfgang Petersen) og „At Play in the Fields of the Lord“ (1991, Hector Babenco) komu á næstu árum en allar þóttu í besta falli miðlungsgóðar og engin sló í gegn í miðasölu. Það sem helst vakti athygli á þessum tíma voru „Major League“ (1989), „Sniper“ (1993) og B-myndin „The Substitute (1996) en ljóst var að frægðasól kappans var á hraðri niðurleið.

One Man’s Hero

Því setti Berenger mikið púður í myndina „One Man‘s Hero (1999) og var einn af framleiðendum hennar ásamt því að leika aðalhlutverkið. Myndin greindi frá stríðinu milli Mexíkó og Bandaríkjanna og raunum liðsforingjans John Riley sem gekk í lið með óvininum og hlaut herdeild hans nafnið Heilagur Patrekur. Við gerð hennar mætti Berenger stöðugu mótlæti frá framleiðendum sem ítrekað drógu úr fjárútlátum sökum ótta við viðbrögð almennings þar sem yfirvöld í Bandaríkjunum voru sýnd í frekar slæmu ljósi. Á endanum var myndin lítið sem ekkert kynnt og sýnd í fáum kvikmyndahúsum og eftir  þessa raun virtist allur vindur úr Berenger.

Vígalegur í „Hatfields and McCoys“

Frá og með aldamótum hefur lítið áhugavert komið frá kappa þó myndirnar hafi verið fjölmargar og einnig gerði hann tilraunir til að koma þáttaröð á laggirnar en fyrstu níu þættirnir í „Peacemakers“ (2003) þóttu lofa góðu en deilur við framleiðendur um stefnu þáttanna mörkuðu ótímabær endalok. Síðustu ár hafa einkennst af ódýrum sjónvarpsmyndum og aukahlutverkum í þáttum með þó tveimur áberandi undantekningum. Christopher Nolan gaf Berenger smá hlutverk í „Inception“ (2010) og leikarinn minnti hressilega á sig í hinni afar vel heppnuðu smáþáttaröð „Hatfields & McCoys“ (2012) með þeim Kevin Costner og Bill Paxton. Fyrir hlutverk sitt þar hreppti Berenger Emmy verðlaunin og var tilnefndur til Golden Globe og aðdáendur vonuðust til þess að betri tíð væri í vændum. Það var aldeilis ekki þar sem flestar myndirnar hafa verið afar daprar og vakið litla sem enga athygli og sumar hafa jafnvel legið fullkláraðar í nokkur ár án þess að fá nokkurn dreifingaraðila og safna bara ryki.

Það er hæpið að „American Dresser“ geri mikið fyrir feril Berengers úr þessu en myndin lítur ágætlega út og það eitt að hún rati í kvikmyndahús er stórt skref upp á við. Þó munu íslenskir unnendur kappans án efa þurfa að sætta sig við að leigja hana á VOD-inu.