Mynd á spænsku slær met í USA

instructionsGamanmyndin Instructions Not Included varð í dag tekjuhæsta mynd með spænsku tali sem sýnd hefur verið í Bandaríkjunum, samkvæmt fréttum frá dreifingaraðila myndarinnar Lionsgate.

Útlit er fyrir að myndin þéni 3,38 milljónir Bandaríkjadala nú um helgina í bíó, og er þá búin að þéna 38,567 milljónir dala alls frá frumsýningu. Aðalhlutverk leikur Eugenio Derbez sem einnig leikstýrir myndinni.

Fyrra metið átti mynd Guillermo del Toro Pan’s Labyrinth‘s,  37,6 m.$.

Myndin er einnig orðin fjórða tekjuhæsta erlenda mynd í Bandaríkjunum frá upphafi, en einungis myndirnar Crouching Tiger, Hidden Dragon (Taívan), Life is Beautiful (Ítalía), og Hero (Kína) eru tekjuhærri.

Myndin kostaði 5 milljónir dala í framleiðslu.

Myndin fjallar um Valentin sem er glaumgosi sem býr í Acapulco í Mexíkó, en skyndilega breytist allt þegar fyrrum kærasta hans skilur eftir barn fyrir framan dyrnar hjá honum og stingur svo af. Valentin ákveður að fara frá Mexíkó og til Los Angeles til að finna móður barnsins, og endar með því að finna hús sem hann og dóttir hans, Maggie, flytja inn í. Valentin er ekki þessi dæmigerða pabba týpa en elur Maggie upp næstu sex árin, ásamt því að byggja upp feril í Hollywood sem einn fremsti áhættuleikarinn í borginni, og Maggie styður hann með ráðum og dáð á hliðarlínunni. Samhliða því að ala upp Maggie, þá gerir uppeldið þá kröfu á hann að hann fullorðnist og þroskist sjálfur. Að lokum þá er sambandi þeirra ógnað þegar móðir Maggie birtist skyndilega aftur, og Valentin áttar sig á að hann gæti misst dóttur sína – og sinn besta vin.