Murphy nýr í Dunkirk Nolans

Tökur á Seinni heimsstyrjaldar-spennumyndinni Dunkirk, nýjustu mynd leikstjórans Christopher Nolan, hefjast eftir um það bil einn mánuð, og ráðning leikara stendur sem hæst. Myndin verður frumsýnd sumarið 2017, nánar tiltekið 21. júlí.

cillian murphy

Nú þegar hafa þekktir leikarar eins og Mark Rylance, Kenneth Branagh og Tom Hardy, verið ráðnir í hlutverk í myndinni, en einnig koma við sögu óþekkt andlit eins og Jack Lowden, Aneurin Barnard og Fionn Whitehead. Þá mun Harry Styles úr hljómsveitinni vinsælu One Direction, leika í myndinni.

Nýjasta viðbótin í leikarahópinn er hinsvegar góðkunningi úr myndum Nolan, Cillian Murphy, en hann lék í Inception og The Dark Knight þríleiknum. Hvaða hlutverk hann á að leika í Dunkirk, er ekki vitað um að svo stöddu.

Myndin verður tekin að hluta til á staðnum þar sem atburðirnir gerðust, í Dunkirk í norðurhluta Frakklands, en myndin fjallar um Operation Dynamo árið 1940, þegar næstum 340 þúsund hermenn bandamanna voru frelsaðir úr sjálfheldu Nasista.

Aðrir góðkunningjar úr Nolan myndum sem eru mættir aftur til leiks eru m.a. tónskáldið Hans Zimmer og Interstellar tökumaðurinn Hoyte van Hoytema.