Murakami samþykkti Norwegian Wood mynd eftir 4 ár

Leikstjóri væntanlegrar myndar sem gerð hefur verið upp úr hinni gríðarlega vinsælu bók japanska rithöfundarins Haruki Murakami, Norwegian Wood, segir að það hafi tekið sig fjögur ár að fá leyfi hjá rithöfundinum til að gera kvikmyndina.

Víetnamsk-franski leikstjórinn Tran Anh Hung segir að Murakami hafi lengst af varist fimlega öllum tilraunum leikstjórans, en gefið leyfi sitt að lokum.
Skáldsagan Norwegian Wood hefur selst í meira en 10 milljónum eintaka í Japan og í 2,6 milljónum eintaka í öðrum löndum, og hún hefur verið þýdd á 36 tungumál, þar á meðal á íslensku.

Sagan gerist í Tokyo seint á sjöunda áratug síðustu aldar, og fjallar um háskólanema sem á í sambandi við tvær konur og á erfitt með að velja á milli þeirra. Annarsvegar er það kærasta besta vinar hans sem framdi sjálfsmorð, og hinsvegar er það sjálfsörugg og sjálfstæð kona.
Norwegian Wood mun verða frumsýnd í Japan í desember og er áætlað að dreifa henni í 36 öðrum löndum í kjölfarið.