Mortal Kombat í nýjum búningi

Opinber stikla var afhjúpuð í dag fyrir hasarmyndina Mortal Kombat, en líkt og nafnið gefur til kynna er um að ræða glænýja bíóendurræsingu á tölvuleikjaseríunni frægu. Í leikjunum segir frá fornri keppni þar sem meistarar í ýmsum bardagastílum berjast hver gegn öðrum.

Í endurræsingunni er aðaláherslan lögð á slagsmálasérfræðing að nafni Cole Young, sem leitar uppi helstu bardagalistamenn í heimi til að berjast með sér gegn óvinum sem vilja ná yfirráðum í alheiminum.

Hryllingsmyndarisinn James Wan (Saw, Insidious, The Conjuring o.fl.) er einn af framleiðendum Mortal Kombat og með helstu hlutverk fara Lewis Tan, Jessica McNamee, Josh Lawson, Tadanobu Asano, Mehcad Brooks, Ludi Lin, Chin Han, Joe Taslim og Hiroyuki Sanada.

Myndin er væntanleg í kvikmyndahús 9. apríl næstkomandi og verður einnig gefin út á streymisveitu HBO Max á sama tíma vestanhafs.

Stikluna má að sjálfsögðu sjá að neðan.

https://www.youtube.com/watch?v=LnCsxCoYJnQ