Moana fær ekki heita Moana

Þegar kemur að markaðssetningu kvikmynda þá skiptir heiti myndanna miklu máli. Komið hefur fyrir að skipt er um heiti á síðustu stundu, eða þá að mynd heitir mismunandi nafni á mismunandi markaðssvæðum, allt í þeim tilgangi að styggja ekki tilvonandi áhorfendur.

moana

Disney fyrirtækið fer ekki varhluta af þessu en þar á bæ þurfa menn að vera sérlega gætnir þegar kemur að allri markaðssetninu, enda er fyrirtækið einkum þekkt fyrir fjölskylduvænar myndir og myndir fyrir börn og unglinga.

Nýjasta dæmið af þessu er teiknimyndin Moana, sem væntanleg er í bíó nú í desember, en heiti myndarinnar verður breytt á Ítalíu vegna þess að þekkt ítölsk leikkona hét sama nafni. Það sem verra er fyrir Disney, er að leikkonan var þekkt fyrir að leika í fullorðinsmyndum svokölluðum, myndum eins og Butt Naked, Rear Burner og Manbait.

Moana Pozzi var ein stærsta klámmyndaleikkona Ítala allt þar til hún lést árið 1994, 33 ára að aldri.  Hún var einnig fyrirsæta, leikkona, þekkt sjónvarpspersóna, rithöfundur og stjórnmálamaður  … en Ítalir tengja nafn hennar þó helst við bláu myndirnar.

Og til að komast hjá öllum misskilningi, þá hefur Disney breytt nafni myndarinnar á Ítalíu í Oceania, og aðalpersónan mun heita Vaiana, en ekki Moana.

En nafnið, Moana, er ekki það eina sem Disneypersónan og leikkonan eiga sameiginlegt. Moana í teiknimyndinni er Polynesísk prinsessa, en eftirnafn leikkonunnar, Pozzi, er polynesískst að uppruna, en hún var skírð eftir eyju á Hawaii, sem þýðir: „staðurinn þar sem sjórinn er dýpstur.“

Ennfremur þá lék Pozzi eitt sinn í eigin teiknimynd sem kallaðist Moanaland, sem fjallaði um klámmyndaleikkonu sem berst gegn spillingu í ítölskum stjórnmálum.

Önnur dæmi um kvikmyndir sem skipt hefur verið um nafn á eru myndir eins og The Sixth Sense frá árinu 1999, en Kínverjar áttu erfitt með að þýða nafnið. Myndin hét því He´s A Ghost, í Kína. Það þarf varla að taka það fram að af augljósum ástæðum varð nafnið ekki til þess að auka á vinsældir myndarinnar í Kína.

Moana, eða Vaiana eins og hún mun heita á Íslandi ( hvort sem það er af sömu ástæðu og rætt er hér að framan eða ekki ), kemur í bíó 2. desember nk.