Með stórt hjarta og starfandi heila: Stjarnfræðilega tilþrifaríkt tilfinningaklám

Interstellar frá 2014 fer rakleiðis á þann lista yfir kvikmyndir sem best skal njóta á stærsta skjánum í þínum radíus og með hljóðið alveg í nötrandi botni (innan þægindamarka þó, vitaskuld).

Enn þann dag í dag er þetta, út frá umfanginu einu, það stærsta sem Christopher Nolan hefur og mun líklegast endanlega hafa merkt á sína (hingað til…) býsna flekklausu ferilskrá. Ekki síður er myndin sú tilfinningaríkasta og hvað metnaðarfyllst í þeim dramapakka sem sóst er eftir.

Með þessum hádramatíska ópus sínum hefur Nolan ákveðið að einblína á ansi tilkomumikla efnisþætti; yfirvofandi útrýmingarhættu, svarthol, ormagöng, einangrun, mátt og mikilvægi ástarinnar (ekki gubba samt), existensíalískar krísur, hvað það þýðir að vera mannlegur, bölvun tímans og alls konar fleira eðlilegt eða abstrakt gúmmelaði.

Það sem einum áhorfanda þykir eflaust dáleiðandi er óhjákvæmilega stutt í þá hlið sem afskrifar allt í Interstellar sem pjúra tilgerð. Merkilega tekst Interstellar þó að dansa einhvern veginn þá línu og vera bæði klínísk og köld – nánast eins og skrifuð af gervigreind – og geysilega melódramatísk til skiptis.

Orgelhamrið og gæsahúðin

Myndin er epísk, gullfallega skotin, stórspennandi (hvort sem um fyrsta eða fimmta gláp sé að ræða), bombastísk og yfirdrifin í dramanu en án þess að detta út í leiðindavæmni eða volga predikun (jæja, jú – hún predikar pínu). Nolan sækist bæði í hreinræktaða geimfantasíu-afþreyingu en um leið upplífgandi, einlægri og átakanlegri sögu um tengsl föður við dóttur sína; fórnirnar sem fylgir stærri ábyrgðunum, sítifandi og endalaust sveigjanlega klukkan, sem hér er gerð að eins konar óvini eða óttaafli persónanna. Sakar heldur ekki að Hans Zimmer hefur hér samið einhverja flottustu, trylltustu og yfirdrifnustu kvikmyndatónlist síðari ára.

Þegar kemur að Hollywood-epík almennt má alltaf (lesist: alltaf!) reiða á það að Zimmer helli sig alveg út og útbúi eitthvað grand og í það minnsta raulanlegt – en með Interstellar er hann kominn á allt allt annað stig, aðra plánetu jafnvel í færni hans til að kalla fram einfaldar en sláandi tilfinningar. Hér logar hann af óðri, háværri dramaorku með taumlausu og trylltu orgelhamri og kemur sennilega hvað mest sjálfur í veg fyrir það að sumir rólegir partar verði of væmnir, þegar á reynir þar í handritinu (enda nokkrir útvaldir frasar alveg á mörkum farsagangs). En engu að síður gefa tónarnir hans þessari íburðarmiklu sögu og lengd ótrúlega grípandi ryþma – og bókaða gæsahúð.

Nolan er annars í harðri baráttu við bæði sína björtustu og svartsýnustu hlið til skiptis, og áhorfendur gætu lent í því sama. Hann hefur ávallt verið andlega svolítið kaldur leikstjóri og stígur hann þess vegna ný skref og hefur aldrei vaðið í tilfinningaþyngri og mannlegri sögu fyrr. En niðurstaðan er uppfull af sál og þemukjarninn er áhrifaríkur þó hann æpi dálítið á meðan daðrað er við þessar stóru pælingar og enn stærri spurningar. Allt tilheyrir þetta lítilli, sjarmerandi fjölskyldusögu þar sem minningar, fórnir, traust, von, allt ofantalið og margt fleira úr mannlega eðlisbankanum.

Ef 2001 væri vasaklútamynd….

Fáir leikarar hafa að öðru leyti komið illa út hjá leikstjóranum og grafalvarleika, og í þessari mynd er sko enginn skortur á grátandi fólki – og ekki alltaf með ósmitandi hætti. Matthew McConaughey er hér upp á sitt besta sem örugga og sultuslaka kúrekatýpan sem hann hefur lagt undir sig í gegnum árin en fylgja honum að vísu fleiri tilfinningastillingar en vanalega. Hér býr hann til alveg sérstaklega heillandi karakter, með stíft sannfærandi túlkun á foreldra sem er hlaðinn eins þungri andlegri pressu og má ímynda sér í samhengi sögunnar.

Jessica Chastain sér einnig um mikilvægt burðarhlutverk, og hittir á allar réttu nóturnar í umdeilanlega vannærðri rullu. Anne Hathaway, grátmeistari mikill, er alltaf frábær, og Michael Caine, David Gyasi, Casey Affleck, Ellen Burstyn og fleiri fá sín tækifæri til að hafa eitthvað að segja og skilja eftir sig. Gervigreindarróbotinn TARS (Bill Irwin) er sömuleiðis þrælskemmtilegur fylgihlutur og lífsnauðsynleg undirstaða fyrir að bæta smá húmor í allt örvæntingarpartíið, með óvenjulegri, óldskúl hönnun eins og Nolan hafi neglt út afsprengi R2-D2 og guðdómlegu steinsúlunni úr Space Odyssey.

Í stjarnfræðilega háa metnaði sínum biður myndin og leikstjórinn mann um að hlaupa yfir nokkrar frásagnarholur sem kannski sumir gætu (og hafa) átt erfiðara með að taka í sátt en aðrir, sérstaklega þegar svona mikil smámunasemi er lögð í að halda eins sterkri samhæfingu við eðlisfræði- og vísindalegar staðreyndir og í boði er. Handritið er snjallt (nema þegar hlutir eru útskýrðir fyrir persónur sem eru augljóslega miklu klárari en meðaláhrofandinn), að mestu leyti hnitmiðað og úthugsað, þó vissulega hannað til að sumir klóri sér í hausnum eftirá eða á meðan, hvort sem það varðar skilning eða lógíkina sem á helst ekki að ofstúdera.

Heldur er hún ekkert að fela það að hafa fengið ýmist virðulega lánað úr 2001, 2010 varla síður Contact (önnur mynd um geimferðarlag með Matthew McConaughey og var borin undir virta eðlisfræðinginn Kip Thorne…) og fleirum en kvikmyndagerðarmaðurinn kemst sem betur fer ekki hjá því að brennimerkja þetta allt með sínum föstu einkennum.

Interstellar hefur starfandi heila, stórt hjarta, vandaða umgjörð út í eitt og satt að segja einhverja allra flottustu kvikmyndatónlist síðari ára. Hún hefur sína galla en annað væri óeðlilegt fyrir metnað af þessum skala og sögu sem snýst í grunninn um hina rammgölluðu mannveru, staka, upp til hópa og tengsl okkar við þá næstu eða nánustu.


Niðurstaða:
Tekist hefur hér meistaralega að hnoða saman poppkornsbíó, umræðuverða hugmyndasúpu og merkilega grípandi tilfinningaklám í einn þungan pakka. Dúndrandi góður pakki samt – og upp á sitt besta sýnir hann verulega í hvað bíó(húsa)forminu býr.