Það þekkja kannski ekki allir nafnið Seth McFarlane en það eru ófáir sem ekki hafa myndað sér skoðun á störfum hans. McFarlane er maðurinn bakvið þætti á borð við Family Guy og American Dad, og verður að segjast að annaðhvort hati maður þá þætti eða elski þá.
McFarlane ætlar sér að halda á heim kvikmyndanna, en hann er nú í viðræðum við tvo leikara sem hann vill fá í væntanlega kvikmynd sína, Ted. Myndin mun fjalla um ungan strák sem á sér þá ósk heitasta að eignast vin. Á jólanótt óskar hann þess að bangsinn hans lifni við og verði besti vinur hans að eilífu. 25 árum seinna er bangsinn enn við hlið stráksins, sem nú er orðinn ungur maður, en hann hefur breyst í keðjureykjandi, kvenhatandi alkóhólista.
Leikararnir sem McFarlane er nú að reyna að fá í myndina eru þau Adam Scott, sem lék nú síðast í Piranha 3D, og Mila Kunis sem ljáir einmitt persónu í Family Guy rödd sína. Þar að auki vinnur McFarlan nú hörðum höndum að því að fá stórleikarann Mark Wahlberg til liðs við sig.
– Bjarki Dagur