McConaughey í kvikmynd um sjálfsmorð

mud04Bandaríski leikarinn Matthew McConaughey hefur verið staðfestur í nýjustu kvikmynd Gus Van Sant, Sea of Trees. Leikarinn heldur því áfram að hasla sér völl í þungum dramatískum hlutverkum.

Myndin fjallar um tvo menn sem ferðast til Aokigahara-skógarins í Japan. Skógurinn hefur í gegnum tíðina verið afar vinsæll staður fyrir fólk sem vill binda endi á eigið líf og er kallaður „Sjálfsmorð-skógurinn“ í heimalandinu. Mennirnir hittast þar í þeim tilgangi að fremja sjálfsmorð en á ferðalagi sínu saman um skóginn lenda mennirnir þó í ýmsum ævintýrum sem fær þá til að meta lífið að nýju og endurhugsa ákvarðanir sínar.

Ken Watanabe leikur annað aðalhlutverkið og ættu aðdáendur Inception að kannast við kauða. Einnig verður hægt að sjá hann í kvikmyndinni Godzilla, sem verður frumsýnd á næstunni.

McConaughey er tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Dallas Buyers Club, sem verður frumsýnd hér á landi á föstudaginn næstkomandi.