Faðir og sonur í ruglinu

Saga yngsta uppljóstrara í sögu Bandaríkjanna, Rick Wershe, sem var 14 ára þegar hann byrjaði að vinna fyrir alríkislögregluna FBI, er á leið í bíó hér á Íslandi þann 24. ágúst nk.

Fyrsta stiklan úr myndinni, sem heitir White Boy Rick, er nýkomin út, en þar fáum við að kynnast þessari sönnu sögu, sem leikstjórinn Yann Demange er ábyrgur fyrir. Í aðalhlutverki er Matthew McConaughey, sem leikur föður piltsins.

Myndin gerist í Detroit í Bandaríkjunum á níunda áratug síðustu aldar, og segir, eins og fyrr sagði sögu Rick Wershe Jr. , sem Richie Merrit leikur, og hvernig glæpaferillinn þróast, á sama tíma og faðir hans reynir að halda fjármálum fjölskyldunnar á réttum kili.

Aðrir helstu leikarar í myndinni eru Jennifer Jason Leigh, Eddie Marsan, Rory Cochrane, Brian Tyree Henry og Bel Powley.

Eftir að lögreglan þurfti ekki lengur á honum að halda hóf hann að selja kókaín 17 ára gamall, og var að lokum handtekinn fyrir að vera með átta kíló af kókaíni í fórum sínum, og dæmdur í lífstíðafangelsi. Hann var látinn laus úr fangelsi á skilorði eftir að hafa dúsað þar í 30 ár.

Kíktu á stikluna, en miðað við þar sem þar má sjá virðist vera á ferðinni margt hnýsilegt, eins og flott kvikmyndataka og litir, góður leikur og áhugaverð saga: