Malkovich sem Poirot – Fyrsta ljósmynd

Eins og við sögðum frá á dögunum, þá er von á nýjum leikara í hlutverki belgíska spæjarans vinsæla og sérvitra, Hercule Poirot, sem leysir morðgátur á færibandi í sögum breska rithöfundarins Agatha Christie.

Um er að ræða bandaríska leikarann John Malkovich, en fyrsta myndin af leikaranum í hlutverkinu hefur nú verið birt og má sjá hana hér fyrir neðan:

Eins og flestum ætti að vera í fersku minni þá lék Kenneth Branagh hlutverk Poirot í Hollywood kvikmyndinni Murder on the Orient Express í fyrra, en Malkovich mun hinsvegar leika spæjarann í nýrri BBC þáttaröð sem heitir The ABC Murders.

Miðað við myndina af Malkovich þá er hinn nýi Poirot ekki einungis með hið einkennandi yfirvararskegg, heldur er hann líka með hökutopp, eins og reyndar Branagh skartaði líka. Kúluhatturinn er einnig á sínum stað.

Handritshöfundur The ABC Murders er Sarah Phelps, en hún skrifaði einnig handritið að síðustu þremur Agatha Christie myndum BBC, And Then There Were None, The Witness for the Prosecution og Ordeal by Innocence.

Von er á The ABC Murders á skjáinn í Bretlandi um næstu jól.  Aðrir helstu leikarar eru Rupert Grint, Tara Fitzgerald, Andrew Buchan, Shirley Henderson, Kevin McNally, Gregor Fisher og Jack Farthing.

The ABC Murders, sem kom fyrst út á bók árið 1936, fjallar um raðmorðingja sem gengur undir nafninu A.B.C. Fyrst lætur morðinginn til skarar skríða í Andover, þá í Bexhill og að lokum í Churston. Eftir því sem tala látinna hækkar, þá er eina vísbendingin eintak af The ABC Railway Guide, á hverjum morðstaðanna.