Madagascar breyttist í hrollvekju

Flestir hafa lent í smávægilegum mistökum í bíó. Myndir byrja ekki á réttum tíma, ljósin slökkna of seint í salnum osfrv. En það er ekki oft sem mistökin eru svo slæm að bíógestir hlaupi í ofboði til dyra, með börnin á eftir sér æpandi af hræðslu.

Þetta gerðist samt í bíói í Bretlandi um daginn. Þegar hópur foreldra og barna var saman kominn í bíó, um 25 fjölskyldur, til að horfa á teiknimyndina Madagascar 3 vildi ekki betur til en svo að byrjað var að sýna hryllingsmyndina Paranormal Activity 4. Samkvæmt foreldri á staðnum, sem sagði frá atvikinu í frétt á Yahoo UK, þá áttuðu foreldrarnir sig fljótt á þessu, en hrollvekjan byrjar strax í upphafi á endurliti þar sem rifjað er upp atriði í fyrstu myndinni þegar Katie sveiflar blóðugum líkama sínum beint framan í myndavélina. Þetta atriði fær fullorðið fólk til að hrökkva við af hræðslu, hvað þá börn! „Það ruddust allir út að útgöngunum, og maður heyrði ekkert nema börn grátandi og öskrandi. Þetta var bara tveggja mínútna bútur úr myndinni, en samt nóg til að hræða þau fyrir lífstíð,“ sagði móðir sem var í salnum ásamt barni sínu.