Lucasfilm frestar 3D útgáfu af eldri Star Wars myndum

Disney kvikmyndafyrirtækið og Lucasfilm, hafa ákveðið að fresta áætlaðri útgáfu af síðustu tveimur Star Wars myndunum í þrívídd. Menn verða því að bíða enn um sinn eftir að því að sjá Star Wars : Episode II og III, eða Attack Of The Clones og Revenge Of The Sith,  í 3D, en The Phantom Menace var þegar komin út í þrívíðri útgáfu.

„Í ljósi þess að við erum að byrja á nýjum Star Wars þríleik, þá munu allir okkar kraftar fara í næstu mynd, Star Wars: Episode VII til að geta skilað frá okkur besta mögulegu verki,“ segja fyrirtækin í yfirlýsingu. „Við munum birta frekari fregnir af 3D útgáfu á eldri myndunum síðar.“

Frumsýna á Star Wars: Episode VII árið 2015.

Verið er að undirbúa tvær myndir til viðbótar. George Lucas, skapari Star Wars, mun ekki skrifa handrit myndanna, en mun samt sem áður koma að þróun sögunnar.

Handritshöfundur Toy Story 3, Michael Arndt, skrifar handrit allra þriggja myndanna.

Disney áætlar að frumsýna Episode VIII og IX á tveggja til þriggja ára fresti á eftir Episode VII.