Leto verður Warhol

Suicide Squad leikarinn Jared Leto mun leika popp – myndlistarmanninn Andy Warhol í nýrri ævisögulegri mynd, Warhol, sem hann mun framleiða sjálfur ásamt Michael De Luca. Terence Winter skrifar handritið.

warhol

De Luca hefur áður framleitt verðlaunamyndir eins og The Social Network og Captain Phillips, sem báðar eru byggðar á sannsögulegum atburðum.

Winter, sem er höfundur sjónvarpsþáttanna Boardwalk Empire, og var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir handrit sitt að The Wolf of Wall Street, mun skrifa handrit Warhol upp úr bók Victor Bockris frá árinu 1989: Warhol: The Biography.

Warhol var einn þekktasti myndlistarmaður 20. aldarinnar, og þekktasti listamaður popp-stefnunnar svokölluðu.

Fræg verk hans eru til dæmis myndir af Campbells súpudósum.

jared leto

 

Warhol var mjög áhugaverð persóna, og leyndi ekki kynhneigð sinni, en hann var opinberlega samkynhneigður, löngu áður en það tíðkaðist, og sveiflaðist frá því að vera mjög hlédrægur og upp í að vera miðpunktur athyglinnar.

Það verður spennandi að sjá Leto takast á við þessa persónu, en leikarinn fékk Óskarsverðlaun fyrir að leika samkynhneigðan mann smitaðan af eyðni, í myndinni Dallas Buyers Club frá árinu 2013.