Laxdælutökum lokið á 27 dögum

Tökum á kvikmyndinni Laxdæla Lárusar (vinnslutitill) lauk í síðustu viku, eftir tuttugu og sjö tökudaga í Búðardal og í Reykjavík, að því er fram kemur í tilkynningu frá Poppoli kvikmyndafélagi.  Í aðalhlutverkum í myndinni eru Stefán Karl Stefánsson, Eggert Þorleifsson og Ágústa Eva Erlendsdóttir. Leikstjóri myndarinnar er Ólafur Jóhannesson. Áætlað er að frumsýna myndina á næsta ári.
Laxdæla Lárusar segir frá verkfræðingi í Reykjavík sem er nýfráskilinn. Hann lýgur sig inn í aðstæður til að geta bjargað sveitarfélagi á Vesturlandi frá glötun í örvæntingarfullri tilraun til að finna sjálfan sig.
„Leikarahópur myndarinnar samanstendur af mörgum af þekktustu leikurum þjóðarinnar og þeim bregður fyrir í stórum sem smáum hlutverkum.“
Auk fyrrnefndra leikara fara með hlutverk í myndinni m.a. þau Hilmir Snær Guðnason, Harpa Arnardóttir, Ragnhildur Steinunn og Benedikt Erlingsson.
Ólafur leikstýrði áður Stóra planinu, Queen Raquela og vefþáttunum Circledrawers.
Handritið er skrifað af Ólafi og Hrafnkeli Stefánssyni.
Laxdæla Lárusar er framleidd af Kristínu Andreu Þórðardóttur, Jóhanni G. Jóhannssyni og Ólafi Jóhannessyni.