Lætur ekki kórónuveiruna stöðva Guardians 3 eða Suicide Squad

Mandatory Credit: Photo by Brian To/Variety/REX/Shutterstock (8553584df) James Gunn WGFestival, Los Angeles, USA – 25 Mar 2017

Leikstjórinn og handritshöfundurinn James Gunn fullyrðir að veirufaraldurinn muni ekki hafa áhrif á komandi verkefni sín, en það eru ofurhetjumyndirnar The Suicide Squad og Guardians of the Galaxy vol. 3. 

The Suicide Squad er bæði sjálfstæð saga og „endurræsing“, þar sem þekktar persónur í DC myndasöguheiminum sameinast. Ýmsir leikarar úr 2016 kvikmyndinni Suicide Squad snúa aftur í hlutverk sín, meðal annars þau Jai Courtney, Joel Kinnaman, Viola Davis og Margot Robbie í hlutverki Harley Quinn. 

Leikstjórinn svaraði nýverið ýmsum spurningum netverja og aðdáenda og sagði nýju myndina sína vera langt á undan áætlun, enn sem komið er. Til stendur að frumsýna myndina í ágúst á næsta ári og telur Gunn meira en öruggt að það verði óbreytt.

„Við erum ótrúlega heppin að hafa náð að klára tökur og náð að stilla upp klippiaðstöðum heima hjá okkur áður en einangrunin hófst,“ segir Gunn á Twitter.

Beðið eftir Verndurum vetrarbrautarinnar

Þegar Gunn hefur lokið vinnu á The Suicide Squad mun hann aftur snúa til samkeppnisaðila DC, Marvel Studios, með þriðju Guardians-myndinni. Lengi var áætlað að hefja framleiðslu á þeirri mynd fyrr en eins og víða var fjallað um lenti Guardians of the Galaxy vol. 3 í biðstöðu eftir að Gunn var rekinn úr starfi í júlí 2018.

Ákvörðunin um brottreksturinn var tekin eftir að umdeild tíst leikstjórans komust í umferð um veraldarvefinn, en þar grínaðist hann með nauðganir og barnaníð, svo dæmi séu tekin. Stjórnarformaður Walt Disney fyrirtækisins, Alan Horn, sagði þessi tíst kvikmyndagerðarmannsins vera óverjanleg og fjarri þeim gildum sem fyrirtækið stendur fyrir. Gunn var nýbúinn að ljúka við handrit Guardians of the Galaxy vol. 3 þegar þessi ákvörðun var tekin.

Þegar fregnir af brottrekstrinum barst út voru fjöldamargir sem stukku leikstjóranum til varnar, á meðal þeirra helsti leikhópur Guardians of the Galaxy-myndanna. Gunn baðst afsökunar á þessum ummælum og sagði að tístin endurspegli ekki þá manneskju sem hann er í dag.

Undirskriftalisti fór hratt stækkandi með vonir um að Gunn yrði ráðinn aftur. Leikararnir Chris Pratt, Zoe Saldana, Dave Bautista, Bradley Cooper, Pom Klementieff, Vin Diesel og Karen Gillan skrifuðu undir opið bréf, Gunn til stuðnings, en á því stóð meðal annars:

„Við styðjum James Gunn heilshugar. Við vorum öll hneyksluð á óvænta brottrekstri hans og höfum við viljandi beðið með að segja okkar hlið til þess að geta þakkað fyrir, beðið fyrir, hlustað á og rætt þetta mál. Á þessum tíma höfum við notið góðs af gífurlegum stuðningi aðdáenda og fjölmiðla sem vilja sjá Gunn aftur ráðinn fyrir þriðju myndina“

Ekkert af þessu virtist duga til þess að Horn skipti um skoðun. Á dögunum átti hann fund með Gunn þar sem formlega kom í ljós að Gunn fengi ekki vinnuna aftur, en töldu þá margir líklegt að nýr leikstjóri yrði ráðinn til þess að kvikmynda handritið sem búið var að ljúka við.

Það var ekki fyrr en tæpu ári síðar þar sem stjórarnir hjá Disney ákváðu að endurráða Gunn, en þá var hann kominn á fullt með framleiðslu The Suicide Squad. Var upphaflega reiknað með því að Guardians 3 yrði frumsýnd árið 2020 en mun hún líklegast ekki líta dagsins ljós fyrr en árið 2022.