Kung fu leikkona í gamanhlutverki

Zhang Ziyi aðalleikkona kung fu myndarinnar Crouching Tiger Hidden Dragon, reynir sig nú við gamanleik, eftir að hafa gert nokkrar dramatískar myndir í röð.

Í myndinni „Sophie’s Revenge,“ leikur hin 30 ára gamla leikkona teiknimyndasöguhöfund sem gerir hernaðaráætlun um að ná kærastanum sínum til baka frá leikkonu, sem stal honum frá henni.

Myndin er samin og leikstýrt af kínversk-bandaríska leikstjóranum Eva Jin. Ásamt Zivi leika í myndinni kínverska leikkonan Fan Bingbing, sem leikur leikkonuna illræmdu Joanna, og suður-kóreaski leikarinn So Ji-sub sem leikur kærastann.

AP fréttastofan bað Zang að lýsa myndinni:  „Við munum fylgja Sophie eftir í myndinni, gráta með henni og hlægja með henni einnig. Ég vona að saga eins og þessi höfði til allra,“ sagði Zhang. 

Myndin verður frumsýnd í Kína 14. ágúst nk. og í Suður Kóreu þann 20. ágúst. Þetta verður talsverð breyting fyrir Zhang, sem hefur fram að þessari mynd leikið í fjórum dramatískum myndum í röð. Hún lék japanska fylgikonu í Hollywood myndinni Memoirs of a Geisha frá 2005, þá lék hún keisaraynju í myndinni The Banquet árið 2006, sem var aðlögun kínverska leikstjórans Feng Xiaogang á Hamlet eftir Shakespeare. Þá lék hún vinkonu óperusöngkonunnar Mei Lanfang í mynd Chen Kaige,  Forever Enthralled. Þá lék hún ennfremur illmenni á móti Dennis Quaid í bandarísk-kanadísku spennumyndinni Horsemen, 2009.

Sophies Revenge er einnig frumraun Zhang sem framleiðandi. „Ég lærði mikið á að framleiða. Nú hef ég betri skilning á verkflæðinu í kringum kvikmyndagerðina,“ sagði hún.

Fyrsta mynd Zhang var hin hugljúfa mynd Zhang Yimou The Road Home, frá 1999. Ferill hennar tók síðan flugið þegar óskarsverðlaunaleikstjórinn Ang Lee fékk hana til að leika í kung fu smellnum „Crouching Tiger, Hidden Dragon,“ frá árinu 2000.

Eftir að hafa leikið í bíómyndum í 10 ár, og framleitt líka, hvað kemur næst, leikstjórn?

„Það er erfitt! Þú getur einungis orðið leikstjóri þegar þú ert líkamlega og andlega tilbúinn. Það að stjórna því sem fram fer á tökustað niður í smæstu smáatriði, er meira en að segja það,“ sagði Zhang að lokum.