Kletturinn aftur til bjargar

SAN ANDREASKletturinn Dwayne Johnson, eða The Rock, virðist mala gull hvar sem hann drepur niður fæti.  Stórslysamynd hans San Andreas þénaði litlar 473 milljónir Bandaríkjadala um heim allan, sem þýðir að framhaldsmynd hefur nú fengið grænt ljós frá framleiðendum, samkvæmt heimildum The Wrap vefsíðunnar.

Neil Widener og Gavin James munu skrifa handritið.

San Andreas fjallar um Raymond Gaines, þyrluflugmann á björgunarþyrlu, sem Johnson lék, og tilraunum hans til að bjarga fjölskyldu sinni frá gereyðingu af völdum hrikalegs jarðskjálfta, sem reið yfir Kaliforníuríki.

Johnson er að sögn tilbúinn til að skella sér um borð í þyrluna á nýjan leik, og leikstjórinn Brad Peyton mætir sömuleiðis aftur til leiks. Carla Gugino og Alexandra Daddario,  sem léku eiginkonu og dóttur Johnson í myndinnni, koma einnig til með að endurtaka leikinn, sem og Paul Giamatti, sem lék jarðskjálftafræðinginn sem spáði fyrir um hamfarirnar.

Enn er óvíst um söguþráð og frumsýningardag framhaldsmyndarinnar.