Kínverjar klipptir út úr Red Dawn

Kvikmyndafyrirtæki í Hollywood hefur ákveðið að klippa út öll kínversk illmenni úr myndinni Red Dawn, en myndin átti upprunalega að fjalla um innrás hóps Kínverja inn í Bandaríkin. Þetta er gert til að styggja ekki kínverska markaðinn.

Myndin er nú þegar komin út í Bandaríkjunum og í aðalhlutverki er ástralski leikarinn Chris Hemsworth, sem þekktastur er fyrir leik sinn í myndinni Thor.

Í myndinni ráðast kínverk illmenni inn í Bandaríkin, en lenda í klónum á háskólaliði í amerískum fótbolta.

Þegar yfirmenn MGM kvikmyndaversins uppgötvuðu að með því að halda kínversku illmennunum inni í myndinni gætu þeir mögulega móðgað þjóð þar sem býr meira en milljarður manna, þá ákváðu þeir að skipta þeim kínversku út fyrir Norður – kóresk illmenni.

Allir kínverskir fánar voru fjarlægðir og Norður-kóreskir settir í staðinn.

Myndin er endurgerð á mynd frá árinu 1984 með Patrick Swayze og Charlie Sheen í aðalhlutverkunum, en í þeirri mynd komu illmennin fá Rússlandi, enda kalda stríðið í algleymingi árið 1984.

Kínverski markaðurinn er sá sem er í einna hröðustum vexti fyrir Hollywood myndir, og því getur verið um umtalsverða fjárhagslega hagsmuni að ræða fyrir framleiðendur.

Kínverjar hafa áður móðgast yfir því hvernig þeir eru birtir í Hollywood kvikmyndum, en eitt besta dæmið er Seven Years in Tibet frá 1997 með Brad Pitt í aðalhlutverkinu.

Samkvæmt blaðinu The Independent standa samningaviðræður enn yfir um útgáfu nýjustu James Bond myndarinnar, Skyfall, en í myndinni er sagt frá pyntingum sem fyrrum breskur leyniþjónustumaður sætti í Kína.

Fyrr á þessu ári voru 13 mínútur klipptar úr myndinni Men In Black 3 til að fjarlægja úr henni öll kínversk illmenni.