Árið 2013 virðist bera með sér öldu af erlendum leikstjórum sem hafa fengið stærra fjármagn en áður til að vonandi krydda upp á úrvalið í svokallaðari „mainstream-„kvikmyndagerð.
Skapari Amélie, Jean-Pierre Jeunet, ferðast til Montana, á meðan að Elite Squad-forsprakkinn José Padilha sér um RoboCop endurgerðina. Árið markar einnig fyrstu spor þriggja hæfileikaríkra leikstjóra frá Suður-Kóreu innan draumasmiðjunnar Hollywood. Þeir eru:
Joon-ho Bong (Memories of Murder, Mother) sem vinnur að framtíðar-hasarnum Snowpiercer með Chris Evans og Alison Pill í aðalhlutverkum. Kim Jee-woon (A Bittersweet Life, I Saw the Devil) með Schwarzenegger-tryllirinn The Last Stand. Síðan að lokum Chan-wook Park (Oldboy, Sympathy for Mr. Vengeance) og fjölskyldudramað/sálfræðitryllirinn hans, Stoker, sem var einmitt að frumsýna nýja stiklu. Helstu hlutverk eiga Nicole Kidman, Matthew Goode og Mia Wasikowska.
Handritið kemur frá Prison Break leikaranum Wentworth Miller og fékk hann að sögn mikinn innblástur frá bæði sögu Bram Stokers um Drakúla og kvikmynd Hitchcocks, Shadow of a Doubt frá 1943. Árið 2010 var handritið sett á „Svarta listann“ yfir bestu ónotuðu handritin í dreifingu, en Miller skrifaði það undir dulnefninu Ted Foulke.
Kidman og Wasikowska leika mæðgurnar Evelyn og India Stoker sem hafa nýlega misst húsbónda heimilisins, Richard Stoker (Dermot Mulroney). Eftir dauða hans birtist hinn dularfulli Charlie frændi (Goode) sem flytur inn til þeirra í kjölfarið, en samband hans við mæðgurnar fer að þróast á ansi óvenjulegan hátt.
Stoker sér dagsins ljós 1. mars á næsta ári.