Keaton tjáir sig um framhald Beetlejuice

BeetlejuiceFramhaldið að Beetlejuice virðist ætla að verða að veruleika ef marka má orð bandaríska leikarans Michael Keaton, sem var í viðtali við MTV á dögunum.

„Ég hef alltaf sagt að Beetlejuice sé sú mynd sem mig langi til að taka þátt í aftur“ sagði Keaton og hélt áfram „Ég hef verið í viðræðum við Tim Burton og talað við handritshöfunda, en núna er þetta loksins að verða að veruleika“. Keaton lék hinn subbulega og löngu dauða Beetlejuice í upprunalegu myndinni.

Fyrir nokkru birtust einnig fréttir af því að Burton væri í viðræðum við Warner Brothers um framhaldið og í nóvember síðastliðin sagði Winona Ryder frá því að hún væri áhugasöm um framhald. „Þetta er ekki endurgerð, heldur á myndin að gerast 27 árum síðar. Mér þykir svo vænt um Lydia. Hún var stór hluti af mér. Það væri mjög áhugavert að skoða hvað hún er að bralla 27 árum síðar“ var haft eftir leikkonuni sem lék Lydia Deetz í gamanmyndinni.

Beetlejuice kom út árið 1988 og fjallar um ung hjón sem lenda í bílslysi og deyja. Þau snúa síðan aftur sem draugar og fara heim til sín. Í fyrstu virðist allt eins og áður, en fljótlega koma aðrir lifandi íbúar til að búa í húsinu, draugunum til lítillar ánægju.