Jólin koma í dag – og líka uppáhalds jólamynd Íslendinga – #2 – OG #1!

Við skulum bara vinda okkur beint í þetta. Fólk þarf að bíða nógu mikið eftir öðrum hlutum um jólin. Fyrst kemur annað sætið:

2. sætið
DIE HARD (1988)
Íslendingar vilja ekki bara snjóþakið gaman með grænum baunum og sykursæta rómantík með súkkulaði yfir jólin; það þarf að sjálfsögðu smá hasar. Die Hard flokkast meira að segja strangt til tekið sem jólamynd; lögreglumaðurinn John McClane (Bruce Willis) ætlar að hitta dóttur sína og fyrrverandi eiginkonu í L.A. yfir jólin, en þegar þýskir, ljóshærðir og samviskulausir hryðjuverkamenn taka allt fyrirtækið hennar í gíslingu kemur til kasta harðhaussins John að bjarga deginum (og jólunum?), með öllum tiltækum ráðum.

En hvaða mynd er þá í fyrsta sæti? Jú, hvað haldiði.

1. sæti:
CHRISTMAS VACATION (1989)
Það eru engin jól án Chevy Chase og Griswold-fjölskyldunnar; í það minnsta ekki á Íslandi. Þessi brjálæðislega gamanmynd segir frá fjölskylduföðurnum seinheppna Clark Griswold, sem ætlar að halda ærlega upp á jólin þetta árið, enda á hann von á vænum bónus frá fyrirtækinu fyrir að hafa staðið sig einstaklega vel. Fljótt flækjast þó málin fyrir Clark og smám saman missir hann algerlega stjórn á jólastressinu. Hinn ódauðlegi John Hughes skrifaði handritið, en þeir sem sáu þessa mynd fyrir 21 ári hafa þó væntanlega ekki haft hugmynd um hversu sígild jólamynd hún yrði í framtíðinni…

Þetta er listinn sem þið völduð? Hvernig líst ykkur á?

Og eitt enn: GLEÐILEG JÓL!

-Erlingur Grétar