Jolie filmar ástarsögu í Bosníu

Kvikmyndaleikkonan Angelina Jolie, sem jafnframt er góðgerðarsendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum, tilkynnti eftir heimsókn til Sarajevo í gær laugardag, að hún myndi bráðlega byrja á bíómynd sem á að gerast í Bosníustríðinu 1992-1995. Um er að ræða ástarsögu.
Jolie var í Sarajevo í embættiserindum fyrir Sameinuðu þjóðirnar, en hún sagði að tökur á myndinni myndu hefjast nú í haust. Myndin fjallar um par sem hittist í Bosníustríðinu og fjallað er um áhrif stríðsins á samband þeirra.
„Myndin er ástarsaga, ekki pólitísk yfirlýsing,“ segir í tilkynningu frá Jolie.

Jolie ræddi í heimsókn sinni um leiðir til að hjálpa þúsundum flóttamanna sem hafa snúið heim eftir stríðið.
Jolie heimsótti flóttamennina í austurhluta Bosníu í apríl sl. ásamt eiginmanni sínum Brad Pitt, og lofaði þá að koma fljótt til baka.
Hún sagði að leikarar í myndinni myndu verða frá öllum þjóðarbrotum fyrrum lýðvelda Júgóslavíu.
„Ég vil hafa sem mest af heimafólki og læra eins mikið og ég get,“ sagði Jolie í yfirlýsingunni.