Mission Impossible: Ghost Protocol fór beint á toppinn í jólaösinni í Bandaríkjunum. Tom Cruise og félögum tókst þannig að koma The Girl With The Dragon Tattoo niður í fjórða sætið. Hollywood verður þó ekki ánægt með jólatrafíkkina í ár sem er töluvert minni en í fyrra.
Mission Impossible 4 halaði inn 26,5 milljónum dollara á meðan að Sherlock Holmes: A Game Of Shadows kom ný inn í annað sætið með 17,8 milljónir dollara. Eins og áður sagði datt The Girl With The Dragon Tattoo niður í fjórða sætið með 13 milljónir dollara um helgina og fjölskyldumyndin We Bought A Zoo með Matt Damon í aðalhlutverki kemur ný inn á listann með 7,8 milljónir dollara, sem telst sem mikil vonbrigði.
Tekjur kvikmyndahúsa drógust saman um 4,5% milli ára en við því var að búast miðað við kvikmyndaaðsókn á fjórða ársfjórðungi. Margir segja að um sé að kenna hækkunar miðaverðs á þrívíddarkvikmyndum ásamt því að efnahagskreppan hafi ekki hjálpað til. Aðrir segja að kvikmyndaframboðið hafi einfaldlega ekki verið nógu sterkt þessi jólin.
Kvikmyndaframleiðendur og kvikmyndaáhugamenn eru orðnir mjög spenntir fyrir komandi ári, en 2012 mun færa okkur Leðurblökumanninn, Hobbitann og James Bond sem gæti verið nóg til þess að endurlífga kvikmyndabransann.