Johnston vill gera mynd um Boba Fett

Joe Johnston, leikstjóri Captain America, vonast til að gera bíómynd um hinn alræmda málaliða Boba Fett úr Star Wars. Joe er ekki ókunnugur heimi Star Wars þar sem hann var hönnuður og stýrði tæknibrellum í fyrstu þremur Star Wars myndunum.

Í samtali við Screenrant.com sagði hann að hann væri að „reyna að fá George til að gera bíómynd í fullri lengd um Boba Fett“ og hann myndi vilja leikstýra sjálfur.

Fyrir þá sem ekki vita þá er Boba Fett málaliði sem kemur fyrst fyrir í upprunlega Star Wars þríleiknum, og hefur fengið á sig hálfgerðan helgimyndastimpil, þrátt fyrir að hafa aldrei sagt mikið í myndunum. Johnston er sagður hafa verið ábyrgur fyrir hönnuninni á brynjunni hans og finnst, að sagt er, hann eiga eitthvað í vinsældum persónunnar.

Fett, var leikinn af Jeremy Bulloch í The Empire Strikes Back og Return of the Jedi, og er ekki persóna sem menn fá mikla samúð með, þó að hann hafi fengið hlýlegra yfirbragð í einhverjum Star Wars hliðarskáldsögum og teiknimyndasögum.

Johnston hefur gert bæði góðar og slæmar myndir á ferlinum. Árið 1999 gerði hann October Sky, sem þykir góð, en einnig hefur hann gert myndir sem eru ekki eins góðar eins og Jurassic Park III, Hidalgo og The Wolfman, frá síðasta ári.