Stórleikarinn Johnny Depp og leikstjórinn Gore Verbinski munu leiða saman hesta sína í fimmta skipti í væntanlegri mynd sem byggð verður á karakternum The Lone Ranger. Depp og Verbinski, sem unnu saman við Pirates of the Caribbean myndirnar þrjár, unnu einnig saman við væntanlegu teiknimyndina Rango.
The Lone Ranger, sem Jerry Bruckheimer mun framleiða, fjallar um dularfullann mann í Villta Vestrinu sem flakkar á hvíta hestinum sínum á milli bæja og berst gegn óréttlæti og illsku. Við hlið hans er traustur vinur hans, indjáninn Tonto, en staðfest hefur verið að Depp muni leika Tonto. The Lone Ranger byrjaði líf sitt sem útvarpsþáttur árið 1933 og varð gríðarlega stór partur af lífi margra barna á þeim tíma.
Depp er nú við tökur á fjórðu Pirates of the Caribbean myndinni, en næst mun hann enn á ný vinna með Tim Burton við myndina Dark Shadows, og þar á eftir hefjast tökur á The Lone Ranger.
– Bjarki Dagur