Joel Schumacher vildi gera The Dark Knight Returns

Eins og vonandi flestir ættu að vita boðar „Joel Schumacher og Batman“ aðeins slæma hluti. Leikstjórinn alræmdi settist niður með The Playlist nýlega og talaði m.a. um plönuðu fimmtu Batman myndina og hans þriðju í seríunni: Batman Triumphant. Við tökur á Batman & Robin leist Warner Bros. svo vel á óklippta myndefnið að Schumacher var strax ráðinn til að gera næstu myndina. Nýr handritshöfundur var fenginn í verkið og George Clooney og Chris O’Donnell áttu báðir að fara með sömu hlutverk og áður. Saga myndarinnar hefði fjallað um Batman Begins illmennið Scarecrow og hvernig áhrif hræðslu-gasið hans hefði á Leðurblökumanninn. Jack Nicholson hefði m.a. endurtekið hlutverk sitt sem Jókerinn til að birtast Leðurblökumanninum sem ofskynjun. Þetta er hins vegar allt skráð í sögubækurnar og sem betur fer fór það svo að framleiðsla á myndinni var hætt. Schumacher bætti þó einu við í viðtalinu við The Playlist sem vekur upp örsmáa löngun til að sjá þessa gleymdu Batman-mynd: Hann var í viðræðum við Nicolas Cage um að leika Scarecrow.

En auðvitað, eftir að Batman & Robin kom út var samband Schumachers og Warner á enda og verkefnið fór í vaskinn. Hann nefndi þó að það hefði verið annað Batman-verkefni sem hann hefði haft mjög mikinn áhuga á, jafnvel meira en Batman Triumphant: The Dark Knight Returns, myndasagan eftir Frank Miller. „Ég grátbað stúdíóið um að gera The Dark Knight Returns, en þau vildu fjölskylduvænan, leikfanga hlut.“ The Dark Knight Returns fjallaði um miðaldra Bruce Wayne sem hefur lagst í helgan stein frá ofurhetjustörfum. Eftir tíu ár neyðist hann til að taka aftur upp grímuna og berjast enn einu sinni við glæpi, en í þetta skiptið blasir við honum mótstaða af hálfu lögreglusveitar Gothams og yfirvöldum Bandaríkjanna.

Þó að flestir gætu verið sammála um að tilvist þriðju Schumacher myndarinnar væri ekki fyrir bestu, þá hefði það verið óneitanlega áhugavert að sjá.