Jeremy Renner, sem tilnefndur var til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í The Hurt Locker, hefur nú staðfest að hann muni taka við taumunum á Mission: Impossible kvikmyndaseríunni. Renner, sem vinnur nú hart að tökum á fjórðu Mission: Impossible myndinni, sagði við MTV á dögunum, „Það er hugsunin. Ég get að vísu ekki séð fram í tímann, en það er sannarlega hugsunin bak við það sem við erum að gera.“
Tom Cruise, sem leikið hefur í öllum M:I myndunum hingað til, þar á meðal þeirri fjórðu, er sagður styðja þá ákvörðun. „Tom er það sem keyrir þessa seríu áfram. Það verður spennandi að sjá hvað gerist næst.“ sagði Renner.
Mission: Impossible myndirnar hafa hingað til allar fjallað um eðaltöffarann Ethan Hunt og eilífu stríði hans gegn þeim sem vilja öðrum illt. Í þeirri fjórðu í röðinni, sem mun bera heitið Mission: Impossible – Ghost Protocol, mun Ethan Hunt einmitt taka að sér karakter Renners, sem er lærlingur, og þjálfa hann í alls kyns njósnaralistum líkt og að stökkva í gegnum sprengjandi þyrlu en rugla ekki í hárgreiðslunni. M:I4-GP, sem er afar hentug skammstöfun, mun einnig skarta leikurum á borð við Ving Rhames, Simon Pegg, Josh Holloway úr Lost og Michael Nyqvist úr Millenium-þríleiknum.
– Bjarki Dagur