American Hustle-leikstjórinn David O. Russel líkti samningi Jennifer Lawrence við The Hunger Games-kvikmyndirnar við þrælkun, í nýlegu viðtali við The New York Daily.
„Persónulega finnst mér að þeir ættu að gefa henni smá tíma til þess að anda. Sérstaklega útaf því þeir eru að græða á tá og fingri. Ég skal segja ykkur hvað þetta snýst um, setjum þetta í líkingu við 12 Years a Slave, þetta er svipað dæmi,“ var haft eftir David O. Russell í viðtalinu.
Þessi orð hafa valdið miklum usla í Hollywood og má með sanni segja að þar á bæ hafi ekki margir húmor fyrir bröndurum eða líkingum við þrælkun. Þó David O. Russell hafi verið að grínast með þessu þá hafa orð hans dregið dilk á eftir sér. Russell hefur í framhaldinu beðist afsökunar á orðum sínum.
„Augljóslega notaði ég heimskulega samlíkingu í lélegri tilraun til þess að vera fyndinn. Ég fattaði það um leið og ég lét orðin út úr mér. Ég harma þessi orð mín,“ segir David O. Russell í afsökunarbeiðni sinni.
Það mætti lesa margt úr orðum hans og leikur eflaust engin vafi á því að framleiðendur The Hunger Games hafi verið óþreyjufullir á meðan Lawrence var við tökur á American Hustle. Þeir sjá þó ekki eftir því í dag því Lawrence fékk Golden Globe verðlaun á dögunum og ætti það að auka áhuga almennings á framtíðarhlutverkum hennar. Þar á meðal fyrir þriðju The Hunger Games myndina.