James verður Öskubuska

Breska leikkonan Lily James, sem er best þekkt fyrir hlutverk sitt í sjónvarpsþáttunum bresku Downton Abbey hefur verið ráðin í hlutverk Öskubusku í Cinderella; nýrri mynd sem Disney er að gera eftir þessu sígilda ævintýri.

Leikstjóri myndarinnar verður hinn breski Kenneth Branagh og ástralska leikkonan Cate Blanchett mun leika vondu stjúpuna.

James lék Lafði Rose McClare í þriðju þáttaröð Downton Abbey og mun snúa aftur í því hlutverki í fjórðu þáttaröðinni. Áður hefur leikkonan leikið til dæmis hlutverk Korrina í myndinni Wrath of the Titans.

Emma Watson úr Harry Potter myndunum hafði verið í viðræðum um að leika Öskubusku í myndinni, en samningar náðust ekki.

Disney setti þessa mynd um Öskubusku fyrst í framleiðslu árið 2010, í kjölfar vinsælda Lísu í Undralandi þar sem Johnny Depp lék hlutverk Hattarans.

Aline Brosh McKenna, höfundur Devil Wears Prada, skrifaði handritið að Öskubusku.