James Mangold endurgerir Borgríki

Nýjasta kvikmynd Olaf De Fleurs, Borgríki, var frumsýnd nú um helgina hér á klakanum og hefur myndin hlotið mikið lof meðal gagnrýnenda hérlendis, en ekki nóg með það heldur hefur James Mangold, leikstjóri Walk The Line, tryggt sér réttindin að bandarískri endurgerð af myndinni. Mangold er nú að vinna að myndasögumyndinni The Wolverine með Hugh Jackman í aðalhlutverki. Borgríki er sjöunda kvikmyndin sem leikstjórinn Olaf de Fleur Johannesson gerir, en hann gaf einnig út gamanmyndina Kurteist Fólk út fyrr á þessu ári.

Söguþráður myndarinnar hljómar svo: „Borgríki er nútíma glæpasaga í reykvískum raunveruleika og segir frá serbneskum bifvélavirkja sem missir ófætt barn sitt í árás þegar meðlimir íslensks glæpahrings ráðast inn á heimili hans. Í hefndaraðgerðum sínum gegn þeim tvinnast örlög hans saman við lögreglukonu sem ýtt er út á ystu nöf, spilltan yfirmann hennar í fíkniefnadeild lögreglunnar og glæpakóng sem er að missa tökin á veldi sínu.“

Bíófíkillinn Tómas Valgeirsson skrifaði m.a. gagnrýni um Borgríki þar sem myndin fær sjö af tíu mögulegum í einkunn.