Jackman verður syngjandi sirkusstjóri

Kyntröllið ástralska Hugh Jackman hefur verið ráðið til að leika bandaríska sirkusmanninn P.T. Barnum í myndinni „The Greatest Showman on Earth“, en um er að ræða söngvamynd sem skrifuð er af Jenny Bicks, sem skrifaði handritið að bíómyndinni Sex and the City.

Myndin verður framleidd af Laurence Mark („Dreamgirls„), Jackman og John Palermo. Myndin kemur í framhaldi af góðu samstarfi þessara aðila við 81. Óskarsverðlaunahátíðina þegar Jackson var kynnir, Mark var aðalframleiðandi og Bicks var hluti af handritshöfundateyminu, sem var tilnefnt til Emmy verðlauna fyrir starf sitt.
Stefnt er að því að nota nýja popptónlist í myndinni, og eru framleiðendur í samræðum við breska tónlistarmanninn Mika um að semja tónlist og söngtexta.

Kvenhlutverkið, sænski næturgalinn Jenny Lind, er sérhannað fyrir Anne Hathaway, sem kom fram ásamt Jackson í opnunaratriði Óskarsverðlaunahátíðarinnar.